Skoðun

Stressaðir framhaldsskólanemar

Óskar Steinn Ómarsson skrifar
Íslenskir framhaldsskólanemar eru undir miklu álagi. Samhliða ströngum námskröfum eru margir nemar í mikilli vinnu með námi og flest þekkjum við það mikla og fjölbreytta félagslíf sem fylgir framhaldsskólaárunum. Það heyrir til undantekninga að starfandi sálfræðingar séu í skólunum og þar sem þeir eru anna þeir ekki eftirspurn. Það er ekki furða að ungmennum líði sífellt verr og að brottfall úr framhaldsskólum sé hátt.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn stytti framhaldsskólann um eitt ár var ekkert tillit tekið til þess aukna álags sem það gæti haft í för með sér fyrir nemendur. Án samráðs við fagfólk og þrátt fyrir hávær mótmæli skólastjórnenda var tekin ákvörðun um að þjappa öllu námsefninu saman í þrjú ár. Fjölbreytni og sveigjanleiki viku fyrir þröngum hagsmunum atvinnulífsins. Skóladagur nemenda lengdist og námsálag jókst.

Á sama tíma hafa engin skref verið stigin til að koma til móts við nemendur með nokkrum hætti. Íslenskir unglingar vinna miklu meira en jafnaldrar þeirra á norðurlöndum, m.a. til að standa straum af háum bóka- og námsgagnakostnaði. Andleg veikindi eru enn tabú innan íslenska skólakerfisins og ungmenni mæta ekki nægilegum skilningi vegna álags, kvíða og vanlíðanar. Þetta leiðir til brottfalls úr skóla og allt of mörg ungmenni enda á örorku vegna alvarlegra andlegra veikinda.

Námsstyrki og sálfræðinga í framhaldsskóla

Í menntakerfinu eigum við ekki að burðast með annað en bækur. Tökum upp námsstyrki í framhaldsskólunum, svo nemendur geti einbeitt sér að náminu og þurfi ekki að vinna langa vinnudaga samhliða skólanum. Ráðum sálfræðinga inn í alla framhaldsskóla, svo nemendur geti fengið aðstoð þar, og aukum niðurgreiðslur til almennrar sálfræðiþjónustu um allt land. Þannig getum við dregið úr vanlíðan ungmenna og komið í veg fyrir brottfall úr skóla.

Höfundur er ritari Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×