Skoðun

Geldur eldislax er málið

Bubbi Morthens skrifar

Laxeldi er mengunarfrekur iðnaður, um það er ekki hægt að deila. Laxeldi gefur af sér miklar tekjur handa þeim sem eiga fyrirtækið, um það er heldur ekki hægt að deila. Og laxeldi skemmir lífríkið á botninum í firðinum þar sem það er sett niður. Um það er heldur ekki hægt að deila.



Það útrýmir hægt og rólega villtum laxastofnum í þeim löndum þar sem það er stundað. Um það er heldur ekki hægt að deila.



Fórnarkostnaðurinn við laxeldið hér á landi er óafturkræfar skemmdir á náttúrulegum stofni íslenska laxins ef ógeldur lax er notaður við eldið, eins og áform eru um, og gríðarleg mengun af áður óþekktri stærðargráðu í sjó hér við land.



Við sem höfum áhyggjur af því að norskir laxeldisaurgoðar hafi keypt upp firði landsins fyrir smánaraur höfum líka áhyggjur af því að þeir skuli hafa ráðið fyrrverandi ráðherra og forseta Alþingis sem talsmann sinn. Það sýnir auðvitað hvers konar vald er við að eiga. Á sínum tíma var enginn ráðherra sem þjónaði Vestfjörðum tilbúinn til að gera eitthvað róttækt til þess að halda kvótanum heima í héraði en nú á að bjarga því með laxeldi. Það er verið að undirbúa hundrað þúsund tonna laxeldi hér á landi á næstu árum. Loðnukvótinn var 57 þúsund tonn í ár. Nú þegar er áætlun upp á 60 þúsund tonn í laxeldinu. Sannkölluð villtavestursstemning ræður ríkjum hér. Gerir fólk sér grein fyrir hvers konar magn þetta er og menguninni sem þessu fylgir? Við erum að tala um úrgang sem mun leggja lífríki heilu fjarðanna í rúst. Nánast leggja þá í eyði.



Nú eru Svíar að banna laxeldi í opnum kvíum sem betur fer. Við sem erum á móti þessum vágesti í íslenska lífríkið vitum líka að menn verða að ná sátt. Það er hægt að sætta sig við margt ef geldur lax verður notaður, um það ætti að vera hægt að ná sátt. Geldur lax mengar ekki íslenskar ár nema að því leyti að hann mun finnast í þeim, hann mun ekki blandast þeim stofni sem þar er fyrir.



Geldur lax er það sem ég tel að væri lausnin á þessum óleik sem norskir aurgoðar og talsmenn þeirra vilja gera íslenskri náttúru með því að ætla að ala hér ógeldan norskan lax í fjörðum Íslands. Um það verður aldrei sátt.

 



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×