Uppreisn kjósenda Þorvaldur Gylfason skrifar 9. febrúar 2017 07:00 Ein líkleg skýring á bágu ástandi stjórnmálanna í Bandaríkjunum og Evrópu nú er uppreisn reiðra kjósenda gegn forréttindum, m.a. gegn stjórnmálaflokkum sem hegða sér eins og hagsmunasamtök stjórnmálamanna og bönkum sem hegða sér eins og ríki í ríkinu. Byrjum vestra. Þar hefur það gerzt í fyrsta sinn að nýr forseti nýtur ekki trausts meiri hluta kjósenda frá fyrsta degi sínum í embætti, heldur stendur hann andspænis götumótmælendum um allt land og erlendis, dómstólar hnekkja tilmælum hans, og hann er dreginn sundur og saman í svo beittu háði í sjónvarpi kvöld eftir kvöld að annað eins hefur ekki sézt síðan Charlie Chaplin reif Adolf Hitler í sig í Einræðisherranum 1940. Hvernig gat þetta gerzt?Óvinveitt yfirtaka Repúblikanar á þingi höfðu gengið svo fram af mörgum kjósendum sínum að Donald Trump, alls óreyndur í stjórnmálum, gat tekið flokkinn yfir eins og að drekka vatn: þetta var óvinveitt yfirtaka eins og það heitir á viðskiptamáli. Trump stráfelldi keppinauta sína og tryggði sér þannig útnefningu flokksins sem lyppaðist niður. Laskaður Repúblikanaflokkur náði meiri hluta í báðum deildum þingsins. Við erum vitni að sögulegri tilraun kjósenda til að taka flokkinn yfir. Litlu munaði að svipað gerðist í flokki demókrata nema Hillary Clinton, fv. þingmaður og ráðherra, stóð af sér yfirtökutilraun Bernie Sanders sem var nýgenginn til liðs við flokkinn og hafði áður verið óháður þingmaður í öldungadeildinni. Clinton hlaut 16 milljónir atkvæða í prófkjörum demókrata gegn 12 milljónum atkvæða Sanders. Til viðmiðunar hlaut Trump 13 milljónir atkvæða í prófkjörum repúblikana. Hvers vegna varð eitt ofan á í flokki repúblikana og annað meðal demókrata? Hvers vegna var Samfylkingunni og Framsókn refsað grimmilega í síðustu þingkosningum hér heima? – en hvorki Sjálfstæðisflokknum né Vinstri grænum. Vegir kjósenda eru órannsakanlegir. Kjósendur – að vísu ekki meiri hluti kjósenda á landsvísu heldur meiri hluti kjörmanna í úr sér gengnu kosningakerfi – tóku uppreisnarmann í röðum repúblikana fram yfir fulltrúa flokkseigenda meðal demókrata. Kjósendur refsuðu demókrötum m.a. fyrir að hafa rofnað úr tengslum við kjósendur eins og blaðamaðurinn Thomas Frank lýsir vel í nýrri bók, Listen, Liberal, og fyrir of náið samneyti við bankamenn á Wall Street sem höfðu næstum keyrt landið í kaf 2007-2008. Því fór sem fór. Tilmæli Trumps forseta fyrstu daga hans í embætti snúast nær öll um að endurreisa forréttindi handa einkavinum forsetans sem hefur umkringt sig með einsleitum hópi auðmanna. Tilmælin snúast m.a. um að slaka á umhverfisvernd með því að veita fyrirtækjum aftur rétt til að demba eitruðum úrgangi í ár og vötn, draga úr fjármálaeftirliti með því að veita bönkum aftur rétt til að féflétta grunlausa viðskiptavini o.fl. í þeim dúr. Varla var það þetta sem kjósendur voru að biðja um. Þetta er gamalt herbragð: repúblikanar laða til sín kjósendur með því að lofa þeim að banna fóstureyðingar og nota þingstyrkinn síðan til að mylja enn frekar undir auðmenn eins og Thomas Frank lýsir í bók sinni What´s the Matter with Kansas?: How Conservatives Won the Heart of America.Þegar lygin hrífur Sömu tilhneigingar verður nú vart í Evrópu. Yfirvofandi úrsögn Breta úr ESB er angi á þessum meiði. Baráttan fyrir úrsögn í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2016 var að miklu leyti byggð á ósannindum líkt og kosningabarátta Trumps í Bandaríkjunum. Lygin var hlaupin hringinn í kringum landið áður en sannleikurinn náði að reima á sig skóna. Og nú standa Frakkar frammi fyrir forsetaframbjóðanda Þjóðfylkingarinnar, Marine Le Pen, sem berst fyrir úrsögn Frakka úr ESB. Aðalkeppinauturinn, François Fillon, frambjóðandi hægri manna, á hendur sínar að verja gegn ásökunum um spillingu, sams konar spillingu og stjórnmálastéttin þar í landi og víðar hefur gert sig seka um í stórum stíl. Jacques Chirac, forseti Frakklands 1995-2007, fékk skilorðsbundinn tveggja ára fangelsisdóm 2011 fyrir spillingu. Dómskerfið virkar.Skattaskjól ógna lýðræði Spilling í Evrópu og Ameríku tekur á sig ýmsar myndir. Ein þeirra leynist í skattaskjólum eins og franski hagfræðingurinn Gabriel Zucman, lektor í ríkisháskólanum í Berkeley í Kaliforníu, lýsir vel í nýrri bók, The Hidden Wealth of Nations. Zucman metur samanlagðan fjárauð heimsins á tæpa 100.000 milljarða Bandaríkjadala. Af þessu fé eru 8.000 milljarðar geymdir í skattaskjólum (þar af um þriðjungur í Sviss), jafnvirði landsframleiðslu Íslands í næstum 500 ár. Það mega Frakkar þó eiga og aðrar Evrópuþjóðir að af 332 ráðherrum álfunnar fundust bara fjórir í Panama-skjölunum: einn á Möltu og þrír á Íslandi, en enginn á meginlandinu. Panama-skjölin vitna þó aðeins um hluta vandans. Panama er ekki eina skattaskjólið. Við bætist að stórfyrirtæki hafa svikið launþega um réttmæta hlutdeild í ávinningnum af aukinni alþjóðlegri verkaskiptingu og tækniþróun og grafið þannig undan almennum stuðningi við slíkar framfarir. Væri falið fé dregið fram í dagsljósið með samstilltu átaki og væri það skráð myndi tvennt gerast. Í fyrsta lagi myndu tekjur af þessum eignum verða skattlagðar líkt og aðrar fjármagnstekjur. Það myndi gerbreyta landslagi heimsbúskaparins enda þótt eignarskattar sem tíðkast óvíða nú orðið væru ekki teknir upp aftur. Í annan stað myndu tortryggni og úlfúð almennings gagnvart auðmönnum minnka og líkurnar á lýðræðislegu kjöri óheflaðra öfgamanna til forustu í stjórnmálum myndu einnig minnka. Til mikils er að vinna. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Donald Trump Þorvaldur Gylfason Mest lesið Hálft líf heimilislausra kvenna Kristín I. Pálsdóttir,Halldóra R. Guðmundsdóttir Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun Kosningasigur fyrir dýravernd Árni Stefán Árnason Skoðun Í morgun vöknuðum við á merkilegum tíma Silja Rún Friðriksdóttir Skoðun Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Halldór 30.11.2024 Halldór
Ein líkleg skýring á bágu ástandi stjórnmálanna í Bandaríkjunum og Evrópu nú er uppreisn reiðra kjósenda gegn forréttindum, m.a. gegn stjórnmálaflokkum sem hegða sér eins og hagsmunasamtök stjórnmálamanna og bönkum sem hegða sér eins og ríki í ríkinu. Byrjum vestra. Þar hefur það gerzt í fyrsta sinn að nýr forseti nýtur ekki trausts meiri hluta kjósenda frá fyrsta degi sínum í embætti, heldur stendur hann andspænis götumótmælendum um allt land og erlendis, dómstólar hnekkja tilmælum hans, og hann er dreginn sundur og saman í svo beittu háði í sjónvarpi kvöld eftir kvöld að annað eins hefur ekki sézt síðan Charlie Chaplin reif Adolf Hitler í sig í Einræðisherranum 1940. Hvernig gat þetta gerzt?Óvinveitt yfirtaka Repúblikanar á þingi höfðu gengið svo fram af mörgum kjósendum sínum að Donald Trump, alls óreyndur í stjórnmálum, gat tekið flokkinn yfir eins og að drekka vatn: þetta var óvinveitt yfirtaka eins og það heitir á viðskiptamáli. Trump stráfelldi keppinauta sína og tryggði sér þannig útnefningu flokksins sem lyppaðist niður. Laskaður Repúblikanaflokkur náði meiri hluta í báðum deildum þingsins. Við erum vitni að sögulegri tilraun kjósenda til að taka flokkinn yfir. Litlu munaði að svipað gerðist í flokki demókrata nema Hillary Clinton, fv. þingmaður og ráðherra, stóð af sér yfirtökutilraun Bernie Sanders sem var nýgenginn til liðs við flokkinn og hafði áður verið óháður þingmaður í öldungadeildinni. Clinton hlaut 16 milljónir atkvæða í prófkjörum demókrata gegn 12 milljónum atkvæða Sanders. Til viðmiðunar hlaut Trump 13 milljónir atkvæða í prófkjörum repúblikana. Hvers vegna varð eitt ofan á í flokki repúblikana og annað meðal demókrata? Hvers vegna var Samfylkingunni og Framsókn refsað grimmilega í síðustu þingkosningum hér heima? – en hvorki Sjálfstæðisflokknum né Vinstri grænum. Vegir kjósenda eru órannsakanlegir. Kjósendur – að vísu ekki meiri hluti kjósenda á landsvísu heldur meiri hluti kjörmanna í úr sér gengnu kosningakerfi – tóku uppreisnarmann í röðum repúblikana fram yfir fulltrúa flokkseigenda meðal demókrata. Kjósendur refsuðu demókrötum m.a. fyrir að hafa rofnað úr tengslum við kjósendur eins og blaðamaðurinn Thomas Frank lýsir vel í nýrri bók, Listen, Liberal, og fyrir of náið samneyti við bankamenn á Wall Street sem höfðu næstum keyrt landið í kaf 2007-2008. Því fór sem fór. Tilmæli Trumps forseta fyrstu daga hans í embætti snúast nær öll um að endurreisa forréttindi handa einkavinum forsetans sem hefur umkringt sig með einsleitum hópi auðmanna. Tilmælin snúast m.a. um að slaka á umhverfisvernd með því að veita fyrirtækjum aftur rétt til að demba eitruðum úrgangi í ár og vötn, draga úr fjármálaeftirliti með því að veita bönkum aftur rétt til að féflétta grunlausa viðskiptavini o.fl. í þeim dúr. Varla var það þetta sem kjósendur voru að biðja um. Þetta er gamalt herbragð: repúblikanar laða til sín kjósendur með því að lofa þeim að banna fóstureyðingar og nota þingstyrkinn síðan til að mylja enn frekar undir auðmenn eins og Thomas Frank lýsir í bók sinni What´s the Matter with Kansas?: How Conservatives Won the Heart of America.Þegar lygin hrífur Sömu tilhneigingar verður nú vart í Evrópu. Yfirvofandi úrsögn Breta úr ESB er angi á þessum meiði. Baráttan fyrir úrsögn í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2016 var að miklu leyti byggð á ósannindum líkt og kosningabarátta Trumps í Bandaríkjunum. Lygin var hlaupin hringinn í kringum landið áður en sannleikurinn náði að reima á sig skóna. Og nú standa Frakkar frammi fyrir forsetaframbjóðanda Þjóðfylkingarinnar, Marine Le Pen, sem berst fyrir úrsögn Frakka úr ESB. Aðalkeppinauturinn, François Fillon, frambjóðandi hægri manna, á hendur sínar að verja gegn ásökunum um spillingu, sams konar spillingu og stjórnmálastéttin þar í landi og víðar hefur gert sig seka um í stórum stíl. Jacques Chirac, forseti Frakklands 1995-2007, fékk skilorðsbundinn tveggja ára fangelsisdóm 2011 fyrir spillingu. Dómskerfið virkar.Skattaskjól ógna lýðræði Spilling í Evrópu og Ameríku tekur á sig ýmsar myndir. Ein þeirra leynist í skattaskjólum eins og franski hagfræðingurinn Gabriel Zucman, lektor í ríkisháskólanum í Berkeley í Kaliforníu, lýsir vel í nýrri bók, The Hidden Wealth of Nations. Zucman metur samanlagðan fjárauð heimsins á tæpa 100.000 milljarða Bandaríkjadala. Af þessu fé eru 8.000 milljarðar geymdir í skattaskjólum (þar af um þriðjungur í Sviss), jafnvirði landsframleiðslu Íslands í næstum 500 ár. Það mega Frakkar þó eiga og aðrar Evrópuþjóðir að af 332 ráðherrum álfunnar fundust bara fjórir í Panama-skjölunum: einn á Möltu og þrír á Íslandi, en enginn á meginlandinu. Panama-skjölin vitna þó aðeins um hluta vandans. Panama er ekki eina skattaskjólið. Við bætist að stórfyrirtæki hafa svikið launþega um réttmæta hlutdeild í ávinningnum af aukinni alþjóðlegri verkaskiptingu og tækniþróun og grafið þannig undan almennum stuðningi við slíkar framfarir. Væri falið fé dregið fram í dagsljósið með samstilltu átaki og væri það skráð myndi tvennt gerast. Í fyrsta lagi myndu tekjur af þessum eignum verða skattlagðar líkt og aðrar fjármagnstekjur. Það myndi gerbreyta landslagi heimsbúskaparins enda þótt eignarskattar sem tíðkast óvíða nú orðið væru ekki teknir upp aftur. Í annan stað myndu tortryggni og úlfúð almennings gagnvart auðmönnum minnka og líkurnar á lýðræðislegu kjöri óheflaðra öfgamanna til forustu í stjórnmálum myndu einnig minnka. Til mikils er að vinna. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun