Skoðun

Stórsókn í menntamálum

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Stjórnmálamenn klifa gjarnan á því að menntun sé mikilvæg og brýnt sé að hlúa að henni. Fjárfesting til framtíðar, er sagt, eins og eina ástæða þess að mennta fólk eigi að vera sú að það skili arði en ekki af því að það sé rétt, en látum það vera, það er sama hvaðan gott kemur. Skólakerfið hefur hins vegar verið afskipt hjá núverandi stjórnarflokkum þegar kemur að fjárveitingum, sem sýnir raunverulegan hug þeirra til málaflokksins.

Stærsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir, þegar kemur að skólakerfinu, er að ef ekkert verður að gert er fyrirsjáanlegt að við stöndum frammi fyrir miklum skorti á kennurum. Ef fram heldur sem horfir verða kennarar með réttindi í grunnskólum um 22% færri árið 2031 en þeir eru í dag. Á sama tíma mun nemendum hafa fjölgað um 15%. Þetta er grafalvarlegt mál, ekki síst í því ljósi að nýnemum í kennaranámi hefur fækkað um 60% frá árinu 2008.

Einhliða breytingar menntamálaráðherra á framhaldsskólanum hafa gert það að verkum að nú er búið að steypa alla í eitt og sama ríkismótið. Flokkur frelsisins hefur gefið þá fyrirskipun að allir framhaldsskólanemar skuli klára nám sitt á þremur árum og fólk yfir 25 ára aldri eigi ekkert erindi í framhaldsskóla.

Og þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar um bestu háskólana er staðreyndin sú að framlög til háskólanna, miðað við hvern nemanda, eru lægri hér en í öllum löndum sem við berum okkur saman við. Ríkisstjórnin ætlar reyndar að bæta úr því, en þó ekki með þeirri aðferð að fjölga þeim krónum sem fara í háskólann, heldur fækka nemendunum.

Við þurfum stórsókn í menntamálum og Vinstri græn telja það forgangsmál. Við viljum setja sjö milljarða í skólakerfið og stuðla að því að kennarastarfið verði fýsilegur kostur. Það þarf að gera með því að tryggja starfskjör, en einnig með því að efla faglegt sjálfstæði kennara og leggja áherslu á skólaþróun.

Menntun er mikilvæg, ekki bara rétt fyrir kosningar. Það vitum við í Vinstri grænum.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×