Skoðun

Tryggjum stöðugleika

Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar
Undanfarin ár hafa verið viðburðarík. Margt hefur breyst til hins betra í samfélaginu vegna víðtækra aðgerða sem ráðist var í á kjörtímabilinu, heimilum og þjóð til heilla. Þar fóru saman orð og efndir. Ber þar hæst Leiðréttinguna, afléttingu hafta og uppgjör slitabúa fallinna banka. Allt mál sem skiptu gríðarlegu máli fyrir velferð þjóðarinnar. Má fullyrða að efnahagslegt sjálfstæði okkar hafi verið endurheimt; við stóðum fast á rétti okkur þótt hart hafi verið að okkur sótt. Til þess þurfti kjark og óhefðbundnar leiðir.

Framsóknarmenn hræðast ekki að taka á erfiðum málum. Við setjum okkur skýr markmið og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að ná í áfangastað. Framsóknarflokkurinn fagnar nú 100 ára afmæli en markmið hans hefur alltaf verið það sama; að bæta lífskjör allra sem hér búa.

Lægri skatta á meðaltekjur

Nú taka við ný verkefni. Við þurfum að efla enn frekar mátt hins almenna launamanns með því að lækka skatta á meðaltekjur. Við þurfum að endurskoða peningamálastefnuna því vextir eru of háir á Íslandi. Þeir voru háir í aðdraganda bankahrunsins, rétt eftir það og eru enn. Þessi tvö mál munu skila heimilum og atvinnulífi miklum ávinningi.

En til þess að koma þeim á rekspöl þurfum við að halda áfram á braut framfara og ábyrgrar stjórnunar í efnahagsmálum og með því tryggja stöðugleika. Það gengur vel og nú er ekki rétti tíminn fyrir kollsteypu. Val kjósenda stendur um áframhaldandi trausta efnahagsstjórn og kraftmikið atvinnulíf öllum til heilla, eða endurnýjaða vinstri stjórn með stuðningi Pírata.

Manngildi ofar auðgildi

Fyrsta hreina vinstri stjórnin klauf þjóðina í herðar niður með umsókn að Evrópusambandinu og margt bendir til þess að nú eigi að endurtaka þann leik. Manngildi ofar auðgildi er leiðarstef Framsóknarflokksins. Því verður haldið til haga. Ég hvet kjósendur til að kjósa með sínum hagsmunum.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×