Skoðun

Lýðræðisleg ákvörðun um lífeyrismál

Elín Björg Jónsdóttir skrifar
Það er afar mikilvægt að bandalög opinberra starfsmanna hafi náð samkomulagi við ríki og sveitarfélög um nýtt lífeyriskerfi fyrir allt launafólk á Íslandi. Það er hluti af því markmiði að ná sátt á vinnumarkaði og bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga.

BSRB skrifaði undir samkomulag við ríki og sveitarfélög á mánudag, eins og önnur heildarsamtök opinberra starfsmanna. Með því samkomulagi er fyrirkomulagi lífeyrismála breytt og tekið upp nýtt kerfi þar sem allir launamenn hafa sömu réttindi.

Samhliða því hafa ríki og sveitarfélög skuldbundið sig til að leiðrétta launamun á milli opinbera markaðarins og hins almenna. Sú vinna á að taka að hámarki 10 ár og mun BSRB beita sér af fullum þunga til að tryggja að staðið verði við þann hluta samkomulagsins.

Þegar breytingar eru fram undan eru eðlilega margar skoðanir á því hvaða leið eigi að fara. Gríðarleg vinna liggur á bak við það samkomulag sem undirritað var á mánudag og hefur frá upphafi verið fjallað um það á lýðræðislegan hátt innan BSRB.

Allir formenn aðildarfélaga BSRB samþykktu árið 2010 að fara í þessa vegferð. Bandalagið hefur allt frá þeim tíma gætt hagsmuna núverandi sjóðsfélaga í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna og þeirra sem síðar munu verða félagar.

Allt frá því þessi vegferð hófst hefur verið fjallað um stöðu viðræðnanna á fundum og þingum BSRB og áherslur bandalagsins skerptar og skýrðar. Sú vinna komst á lokapunkt þegar formannaráð BSRB, sem er æðsta vald þess milli þinga, fjallaði um málið í byrjun september.

Á fundi formannaráðsins var farið ítarlega yfir niðurstöðu í samningaviðræðum við ríki og sveitarfélög. Að því loknu fór fram atkvæðagreiðsla þar sem formenn 22 félaga af 26 samþykktu að fela forystu BSRB að skrifa undir samkomulagið.

Vinnunni er ekki lokið. BSRB mun sjá til þess að staðið verði við alla þætti samkomulagsins. Vinna við greiningu og leiðréttingu á launum er fram undan. Þar mun bandalagið halda áfram að gæta hagsmuna sinna félagsmanna.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×