Skoðun

Kynlíf og næstu skref

Rúnar Gíslason skrifar
Mig langar að tala um kynlíf. Ég held að flestir hljóti að vera sammála því að kynlíf er afskaplega mikilvægt fyrir vöxt og viðhald hvers samfélags. Fæst okkar væru til nema vegna þess að foreldrar okkar lögðu á sig að stunda kynlíf, sem getur vissulega verið töluvert líkamlegt erfiði. Kynlíf er því grunnurinn að tilveru flestra. Miðað við mikilvægi þessa málaflokks, þ.e. kynlífs, er magnað hversu lítið vægi það hefur í umræðunni og í skólakerfinu. Kynfræðslu er illa sinnt í skóla sem er magnað miðað við hversu margir hafa bara þó nokkurn áhuga á kynlífi.

Það er reyndar margt fleira sem snýr að lífi og tilveru fólks sem er varla nefnt í skólakerfinu. Meðal annars það sem gjarnan kemur á eftir kynlífi, þ.e. barnauppeldi! Það ætti ekki að þurfa að fjölyrða um mkilvægi kynfræðslu. Góð kynfræðsla getur komið í veg fyrir ótímabærar þunganir. Hún getur líka stuðlað að heilbrigðari samskiptum kynjanna, já og fólks af sama kyni ekki síður, og getur jafnvel komið í veg fyrir kynferðisbrot. Síðast en ekki síst þá er það með þetta áhugamál, eins og svo mörg önnur, að þekking og færni eykur ánægjuna!

Stjórnvöld hafa því miður lítinn áhuga á kynlífi og ef eitthvað er þá virðist þeim vera í nöp við það. Alla vega hafa stjórnvöld ákveðið refsa þeim sem stunda kynlíf með þeim árangri að þeir ná að fjölga mannkyninu, fjölga skattgreiðendum. Refsingin er fæðingarorlof. Það er ekki hægt að hugsa sér meira ábyrgðarhlutverk en foreldrahlutverkið. Foreldrum er ekki umbunað fyrir þessa ábyrgð. Stjórnendur fjármálastofnana fá hins vegar góða bónusa fyrir meinta ábyrgð. Fæðingarolofið er refsing vegna þess hversu stutt það er. Refsingin felst í óbrúuðu bili milli fæðingarorlofs og dagvistunar á leikskólum. Það er hins vegar mjög mismunandi hversu breytt það bil er. Ýmist eru börn að komast að á leikskóla þegar þau eru aðeins ársgömul eða ekki fyrr en þau eru komin á Facebook! (eða svona því sem næst).

Á leikskólum er unnið frábært starf og það fagfólk sem þar starfar gegnir mikilvægu hlutverki í uppeldi hvers barns. Ég vil að börn njóti jafnræðis hvar sem þau eru á landinu. Fæðingarorlofið á að vera tólf mánuðir og síðan á leikskólinn að taka við. Það er kynlíf með farsælan endi!




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×