Skoðun

Lóðir óskast

Eygló Harðardóttir skrifar

Að byggja sjálfur sitt eigið hús er draumur sem hefur orðið æ fjarlægari fyrir marga eftir því sem aðgengi að lóðum hefur minnkað og kröfur til húsnæðis aukist.



Við endurskoðun á húsnæðismarkaðnum höfum við einkum horft til nágrannaríkja okkar sem fyrirmyndir. Eitt af því sem vakti athygli mína var hin ríka hefð í Noregi fyrir að byggja sjálfur. Árangurinn er ótvíræður því ekkert Norðurlandanna er með jafn hátt hlutfall séreignar og ein- og tvíbýla á húsnæðismarkaðnum og Noregur.



Í Hollandi lagði stjórnmálamaðurinn Adri Duivesteijn upp með þá hugmyndafræði að íbúarnir sjálfir ættu að fá valdið aftur til sín og byggja sitt heimili. Árangurinn má sjá í Almere Poort hverfinu. Lóðirnar voru seldar á mismunandi verði eftir tekjum fólks. Tekjulægra fólk gat keypt lóð fyrir 2,6 m.kr. og valið svo úr nokkrum tegundum af forsmíðuðum húsum. Jafnframt voru í boði lóðir fyrir fólk með hærri tekjur og lóðir fyrir fjölbýlishús.



Markmiðið er að á endanum rísi í Almere Poort 3.500 hús sem fólk hefur byggt sjálft eða með aðstoð iðnaðarmanna og arkitekta. Litlar sem engar kröfur eru gerðar til húsanna umfram lágmarkskröfur um gæði húsa, þéttleikinn er ýmist mikill eða lítill og sveitarfélagið fer ekki í lokafrágang á vegum og grænum svæðum fyrr en búið er að byggja öll hús í einstökum hluta.



Í grunninn er þetta ekki flókið, - við þekkjum til sambærilegra dæma í íslenskri byggingarsögu, t.d. í Smáíbúðahverfinu og Grafarvogi.

Land er einfaldlega skipulagt með fjölbreyttum valkostum, litlar lóðir og stórar, litlar íbúðir og stórar íbúðir, einbýlishús og fjölbýlishús, íbúðar- og atvinnuhúsnæði eða jafnvel blöndu af hvoru tveggja.



Og lóðirnar eru boðnar til sölu.

Engar niðurgreiðslur, engar sérstakar kvaðir um húsagerð, stærðir, bílskúra, þakhalla, mænisstefnu, gerð klæðninga eða lit á gluggapóstum.

Því óska ég hér með eftir byggingafulltrúum og sveitastjórnarmönnum sem eru tilbúnir að brjótast út úr kassanum og hjálpa fólki að byggja sjálft.



Pistillinn birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×