Skoðun

„Þetta er ógeðslegt þjóðfélag“

Björgvin Guðmundsson skrifar
Fyrir skömmu hækkuðu laun forstöðumanna ríkisstofnana, formanna ríkisnefnda og æðstu embættismanna stjórnarráðsins um allt að 48%. Hæstu launin fóru í 1,6-1,7 milljónir á mánuði.

En ekki nóg með það. Hækkunin var látin gilda 19 mánuði til baka. Það þýddi, að þeir hæst launuðu fengu 30-32 milljónir greiddar í einu lagi sem launauppbót!

Of mikill lífeyrir

Á sama tíma og þetta gerðist voru ýmsir eldri borgarar og öryrkjar að fá bréf frá Tryggingastofnun ríkisins, þar sem þeir voru rukkaðir um háar fjárhæðir til baka, þar eð þeir hefðu fengið of mikið greitt í lífeyri í upphafi!

Með öðrum orðum: Hungurlúsin, tæpar 200 þúsund krónur og rúmlega 200 þúsund á mánuði eftir skatt, reyndist of há! Það þurfti að klípa af þessum upphæðum.

Misskipting

Og hvernig átti fólkið að borga það til baka? Því er ósvarað. Þetta hvort tveggja gerðist um svipað leyti. Misskiptingin í þjóðfélaginu kristallaðist í þessu tvennu, himinháum greiðslum til forstöðumanna og æðstu embættismanna og kröfum á aldraða og öryrkja um að greiða til baka.

Fráleitt í fyrstu

Mér komu þá í hug orð Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra: Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. Mér þóttu þessi orð fráleit í fyrstu. En ég held ég taki undir þau í dag.

Styrmir sagði við rannsóknarnefnd Alþingis: „Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. Þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Pistillinn birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×