Skoðun

Alþingi bæti kjör aldraðra og öryrkja!

Björgvin ­Guðmundsson skrifar
Um þetta leyti í fyrra skoraði ég á Alþingi að bæta kjör aldraðra og öryrkja það mikið, að þau dygðu til sómasamlegrar framfærslu. Ég gerði þetta í grein í Fréttablaðinu. Ég benti á, að þeir aldraðir og öryrkjar, sem aðeins hefðu lífeyri almannatrygginga, hefðu ekki fyrir öllum útgjöldum og gætu ekki leyst út lyfin sín eða yrðu að sleppa því að fara til læknis þó nauðsynlegt væri. Ég skoraði á Alþingi að leysa málið strax. Ég var svo grænn, að ég hélt að Alþingi mundi taka rögg á sig, gera þverpólitíska sátt og afgreiða kjarabætur til aldraðra og öryrkja í allsherjar sátt. Með því hefði álit á Alþingi stóraukist. Því hefði ekki verið vanþörf á.

Ekkert gerðist

Ekkert gerðist. Alþingi gerði ekki neitt. Alþingi hafði engan áhuga á að leysa vanda aldraðra og öryrkja. Alþingi hefur greinilega fundist þægilegra að aðhafast ekkert. Það hefði verið talsverð vinna að koma á þverpólitískri sátt.

Ég skrifaði líka forseta Alþingis, Einari K. Guðfinnssyni; bað um að hann hefði forgöngu fyrir því, að Alþingi samþykkti kjarabætur fyrir aldraða og öryrkja. Forseti Alþingis brást líka. Hann stakk bréfinu undir stól. Hann hafði sama hátt á og ráðherrarnir, þegar þeir fá bréf frá öldruðum og öryrkjum. Þeir stinga bréfunum ofan í skúffu.

Alþingi brást í fyrra

Alþingi brást öldruðum og öryrkjum í fyrra. Til þess að kóróna ósómann felldi Alþingi við afgreiðslu fjárlaga að veita öldruðum og öryrkjum afturvirkar kjarabætur eins og öðrum í þjóðfélaginu. Davíð Oddssyni, fyrrverandi forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, ofbauð þetta. Hann gagnrýndi það í sjónvarpinu við umræður um forsetaembættið, að aldraðir og öryrkjar skyldu ekki fá afturvirkar kjarabætur í fyrra eins og aðrir.

Ný áskorun á Alþingi

Ástandið er enn þannig í kjaramálum þeirra aldraðra og öryrkja, sem eingöngu verða að reiða sig á lífeyri frá almannatryggingum, að þeir eiga ekki fyrir öllum útgjöldum. Þeir hafa ekki nóg til framfærslu. Ég vil því enn á ný skora á Alþingi að leysa mál þessa fólks. Ég skora á Alþingi að hækka lífeyri þessa hóps þannig, að dugi til framfærslu. Ég tel, að hækka þurfi lífeyrinn um 50 þúsund krónur á mánuði að lágmarki til þess að lífeyrir dugi til sómasamlegrar framfærslu. Hækka á verst stadda hópinn um þessa fjárhæð og aðrir aldraðir og öryrkjar hækki hlutfallslega. Ég skora á Alþingi að gera þverpólitíska sátt til þess að leysa framfærsluvanda aldraðra og öryrkja.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×