Skoðun

Reykjavíkurmódelið virkar

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Reykjavíkurborg hefur náð ótrúlegum árangri að undanförnu í að fækka í hópi þeirra Reykvíkinga sem þurfa á fjárhagsaðstoð til framfærslu að halda. Notendum í janúar til mars 2016 fækkaði um 23,6% miðað við sama tímabil árið 2015. Um er að ræða 455 einstaklinga sem er sambærilegur fjöldi og býr í Vík í Mýrdal og öllum í Mýrdalshreppi. Stærð hópsins er sömuleiðis sambærileg á við 7-8% stöðugilda hjá Reykjavíkurborg. Þannig að um umtalsverðan fjölda er að ræða og árangurinn augljós.

Eins og oft hefur komið fram þá er fjárhagsaðstoð neyðaraðstoð og samfélagslegt öryggisnet. Þeir sem ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum eða eru óvinnufærir fá aðstoð. Það er mjög mikilvægt að fólk festist ekki á fjárhagastoð og brýnt að veita því góðan stuðning svo aðstæður hópsins versni ekki. Þetta er hverjum og einum einstaklingi mikilvægt og samfélaginu í heild sömuleiðis, meðal annars fjárhagslega. Á síðasta ári sparaðist hjá borginni tæplega hálfur milljarður kóna vegna góðs árangurs hvað fjárhagsaðstoð varðar.

Reykjavíkurmódelið byggir á samræmdu verklagi við móttöku og meðferð umsókna um fjárhagsaðstoð þar sem áhersla er lögð á inngrip snemma í ferlinu og að notendur finni styrkleika sína, meti starfsgetu og setji sér valdeflandi markmið. Um leið þarf að muna að um afar fjölbreyttan hóp er að ræða og að þarfirnar eru breytilegar.

Árangurinn að undanförnu er frábær. Hann hefur ekki náðst sjálfkrafa því ásamt betra atvinnuástandi í landinu skipta þar mestu fjölbreytt úrræði, manneskjulegt viðhorf og öflugir virkni- og þjónusturáðgjafar á þjónustumiðstöðvum borgarinnar. Enda var það ekki að ástæðulausu að virkniráðgjöfum var fjölgað á árunum eftir hrun. Það var gert til að ná betur utan um málaflokkinn og hjálpa fólki að komast aftur í virkni, öllum til gagns. Þess vegna er mikilvægt að halda áfram á sömu braut enda öllum vonandi orðið ljóst að Reykjavíkurmódelið virkar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. júní.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×