Skoðun

Einkavædda öndin

Elín Björg Jónsdóttir skrifar
Það er einkennilegt að vera komin í þá stöðu að þurfa að rökræða við mætasta fólk hvort einkarekstur á ákveðnum einingum í heilbrigðiskerfinu okkar, til dæmis heilsugæslustöðvum, jafngildi því að verið sé að einkavæða þá þjónustu sem þessar einingar bjóða upp á.

BSRB og ASÍ stóðu í liðinni viku fyrir málþingi undir yfirsögninni „Er einkarekstur í heilbrigðisþjónustu almannahagur?“ Tilefnið var aðkallandi því heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að þær þrjár nýju heilsugæslustöðvar sem höfuðborgarbúar geta brátt sótt til verði reknar af einkaaðilum, í stað Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eins og BSRB telur eðlilegast.

Þessa ákvörðun virðist heilbrigðisráðherra geta tekið án þess að ræða við einn né neinn, þrátt fyrir að með því sé hann að auka enn á einkavæðinguna í heilbrigðiskerfinu. Alþingi fjallar ekki um málið og ekki er kallað eftir umsögnum almennings og hagsmunaaðila. Engin umræða á sér stað.

Það kom mér á óvart á áðurnefndu málþingi að ekki virðast allir leggja sama skilning í orðið einkavæðing. Ég hélt við gætum öll verið sammála um það smáatriði og einbeitt okkur að því að ræða hvort þessi einkavæðing sem ráðherra vill koma til framkvæmdar sem fyrst sé almannahagur eða ekki.

Læknar ósammála

Tveir virtir sérfræðingar úr Háskóla Íslands voru sammála um að einkarekstur sé ekkert annað en einkavæðing. Þannig nefndi Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, þrjár tegundir einkavæðingar í erindi sínu og studdist þar við skilgreiningar erlendra sérfræðinga. Í fyrsta lagi er það sala á opinberri stofnun eða öðrum eignum, í öðru lagi tilfærsla á rekstri eða framkvæmd frá hinu opinbera til einkaaðila í einkaframkvæmd, og í þriðja lagi tilfærsla fjármögnunar frá hinu opinbera til einkaaðila.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, var sammála Rúnari og sagði skýrt í sínum huga að einkarekstur væri einfaldlega einkavæðing á þjónustu.

Þórarinn Ingólfsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna, sagðist í erindi sínu á fundinum ósammála þessu og sagði einkarekstur og einkavæðingu tvennt ólíkt. Svipaðar raddir heyrðust í kjölfar ræðu sem ég flutti í Hafnarfirði á frídegi verkalýðsins, 1. maí.

Þetta er annað hvort meinlegur misskilningur sem rétt er að leiðrétta, eða tilraun til að stýra umræðunni með því að finna upp ný og mildari hugtök til að slá ryki í augu fólks. Rannsóknir Rúnars Vilhjálmssonar prófessors sýna að rúmlega 80 prósent landsmanna vilja að heilbrigðisþjónustan sé rekin fyrst og fremst af hinu opinbera. Það vita þeir sem vilja finna annað og hentugra orð fyrir einkavæðingu.

Arðgreiðslur af skattfé

Eins og Sigurbjörg nefndi í erindi sínu er mun auðveldara að einkavæða þjónustu heldur en að snúa til baka og láta ríkið sjá um verkefni sem áður voru í höndum einkaaðila. Með einkavæðingunni skapast viðskiptahagsmunir og kröfur um arðgreiðslur fyrir þjónustu sem fjármögnuð er af skattfé. Hættan er sú að þjónustan verði dreifð og brotakennd og að stjórnvöld missi möguleika á að forgangsraða og skipuleggja þjónustuna í þágu almannahagsmuna.

Við getum fengið lánað orðatiltæki frá enskumælandi þjóðum til að auðvelda skilning. Ef eitthvað lítur út eins og önd, syndir eins og önd og hljómar eins og önd eru allar líkur á að það sé önd. Einkarekstur er ekkert annað en einkavæðing undir öðru nafni.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×