Skoðun

Sigurður Ingi efni loforðin við aldraða og öryrkja!

Björgvin Guðmundsson skrifar
Nýr forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, hefur tekið við af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Það kemur í hlut hans að efna stærsta kosningaloforð flokksins við aldraða og öryrkja.

Eftirfarandi var samþykkt á flokksþingi Framsóknarflokksins fyrir þingkosningarnar 2013: Lífeyrir aldraðra og öryrkja verði hækkaður vegna kjaraskerðingar (kjaragliðnunar) þeirra á krepputímanum. Þetta kosningaloforð var endurtekið af frambjóðendum flokksins í kosningabaráttunni 2013. Það er ekki farið að efna þetta loforð enn.

Kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík sagði að hækka þyrfti lífeyri um 20% til þess að efna þetta loforð. Nú hefur verið ákveðið að flýta næstu þingkosningum til haustsins. Sigurður Ingi hefur því stuttan tíma til þess að efna loforðið.

Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti það sama fyrir kosningar 2013. Á landsfundi flokksins var eftirfarandi samþykkt: Ellilífeyrir sé leiðréttur STRAX til samanburðar við þær hækkanir, sem orðið hafa á lægstu launum síðan í ársbyrjun 2009. Hér kemur það alveg skýrt fram á hvern hátt á að leiðrétta lífeyri vegna kjara­gliðnunar krepputímans og það er tekið fram, að þetta skuli gert strax.

Sigurður Ingi, nýr forsætisráðherra, ætti því ekki að vera í vandræðum með að fá samþykki fjármálaráðherrans, Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins við mál þetta.

Sigurður Ingi er vandaður maður. Ég hygg, að það megi treysta honum til þess að efna þetta stærsta kosningaloforð við aldraða og öryrkja. Það er engin undankoma. Efni ríkisstjórn Sigurðar Inga ekki þetta loforð við aldraða og öryrkja fljótlega bætist það við syndaregistur stjórnarinnar og verða viðbótarrök fyrir því, að stjórnin fari frá. Stjórnin hefur hálft ár til þess að efna þetta loforð.

Síðan hefur bæst við ný kjara­gliðnun á árinu 2015. Á því ári hækkuðu lágmarkslaun um 14,5% en lífeyrir hækkaði aðeins um 3%. Hér vantar því 11,5 prósentustig. Ríkisstjórnin hefur ekki lofað að leiðrétta lífeyri vegna þessarar kjara­gliðnunar. En rökin fyrir því að leiðrétta vegna kjaragliðnunar 2015 eru nákvæmlega þau sömu og rökin fyrir leiðréttingu vegna fyrri kjaragliðnunar. Ég vona að nýi forsætisráðherrann vilji leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja vegna kjara­gliðnunar síðasta árs.

Ef hvort tveggja er leiðrétt samtímis þarf að hækka lífeyri aldraðra og öryrkja um rúm 30%. Aldraða og öryrkja munar um þá hækkun. Hún skiptir sköpum um það hvort þeir geti lifað af lífeyrinum eða ekki. Þessi leiðrétting gæti verið liður í því, að stjórnvöld sættist við þjóðina.

Ég skora á Sigurð Inga forsætisráðherra að efna loforðin við aldraða og öryrkja strax.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×