Skoðun

Gömul og ný brot

Eygló Harðardóttir skrifar

Ofbeldi í nánum samböndum, heimilisofbeldi og kynferðislegt ofbeldi eru mannréttindabrot sem brjóta gegn grundvallarfrelsi einstaklinga.



Á síðasta ári tók ég ákvörðun um að auka aðstoð við þolendur ofbeldis með því að veita geðsviði Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri framlag til að fjármagna nýjar stöður sálfræðinga sem veita þolendum eldri brota ráðgjöf og meðferð.



Við mótun verkefnisins var byggt á áratuga reynslu Neyðarmóttökunnar, en hún aðstoðar þolendur nýlegra brota. Til hennar leita árlega um 130 einstaklingar vegna kynferðisofbeldis. Konur eru 97% brotaþola og um 78% þeirra eru 25 ára eða yngri. Öllum sem leita til Neyðarmóttökunnar er boðin sálfræðiþjónusta. Í fyrstu viðtölunum er lögð áhersla á áfallahjálp og sálrænan stuðning ásamt því að meta afleiðingar ofbeldisins. Ef áfallastreitu­röskun greinist er boðið upp á sérhæfða, áfallamiðaða, hugræna atferlismeðferð. Þeir sem ekki þurfa formlega meðferð fá stuðning eftir þörfum í anda einstaklingsmiðaðrar þjónustu. Brottfall úr þjónustu er hátt og er það í samræmi við erlendar rannsóknir og reynslu annarra af þjónustu við þolendur kynferðisofbeldis. Erlendis hefur meðferð í gegnum netið verið reynd til að draga úr brottfalli og hefur komið í ljós góður árangur, ekki hvað síst gagnvart ungum þolendum. Þessi leið gæti einnig verið áhugaverð til að auðvelda aðgengi að þjónustu um allt land, óháð búsetu.



Frá því að sjúkrahúsin tvö á Akureyri og í Reykjavík fengu aukið framlag hafa þau unnið að því að byggja upp góða meðferð fyrir þolendur eldri brota. Þegar hafa tugir einstaklinga notið þjónustu þeirra. Áskoranir eru margvíslegar enda þyngd mála mikil og áfallasaga oft flókin, jafnvel þannig að einstaklingarnir hafa búið við alvarlegt ofbeldi til fjölda ára eða orðið fyrir mörgum sjálfstæðum áföllum. Brotaþolar fást oft við líkamleg veikindi samhliða geðrænum vandamálum og hafa lifað lengi með afleiðingum ofbeldisins án meðferðar. Þarna kemur líka í ljós að brottfall úr meðferð er hátt, enda er eitt af einkennum áfallastreituröskunar að forðast allt sem minnir á áfallið. Að mínu mati er þörfin fyrir ofangreint verkefni skýr. Búið er að tryggja áframhaldandi fjármögnun þess á nýju ári.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×