Skoðun

Samhljómur gegn ójöfnuði

Árni Páll Árnason skrifar
Í Fréttablaðinu í vikunni kvartar formaður Sjálfstæðisflokksins yfir því að það skorti á samhljóm í kröfugerð samtaka launafólks í yfirstandandi kjaradeilum. Hann segir: „Það skortir alla samstöðu, það er enginn samhljómur í kröfugerðinni.“

Þetta er ekki alls kostar rétt. Þrátt fyrir ólíkar kröfur einstakra samtaka launafólks er barátta gegn auknum ójöfnuði í samfélaginu það sem sameinar kröfugerð allra. Ríkisstjórnin verður að taka þau skilaboð til sín.

Best settu fyrirtækin hagnast sem aldrei fyrr og arðgreiðslur og stjórnarlaun hækka í engu samræmi við þau tilboð sem atvinnurekendur setja fram í kjaraviðræðunum. Hækkun lágmarkslauna í 300 þúsund krónur á þremur árum er við slíkar aðstæður hógvær krafa, enda samfélagslegt markmið okkar að atvinnurekstur hér sé það arðsamur að hann standi undir slíkum launum. Það á að skipta hagnaði af rekstri með eðlilegum hætti milli launafólks og eigenda.

Bilið milli þeirra tekjulægstu og tekjuhæstu eykst, misskipting eigna eykst og aðgerðir ríkisstjórnarinnar ýta enn frekar undir þessa þróun. Lágtekjufólk og meðaltekjufólk ber að fullu kostnaðinn af hruni krónunnar með launum sem eru verulega lægri en í nágrannalöndunum. Stórfyrirtækin njóta hins vegar ávinningsins af gengishruninu en leggja ekkert af mörkum á móti. Öflugustu fyrirtækin og ríkustu einstaklingarnir hafa fengið gríðarlegar skattalækkanir í tíð ríkisstjórnar ríka fólksins, sem velur að nýta ekki auðveld tækifæri til að afla meiri tekna af auðlindum þjóðarinnar.

Einu sinni var vandamál Íslands að atvinnuvegirnir stóðu ekki undir kaupi sem fólki var sæmandi. Þá þurfti þjóðarátak um stórfelldar skipulagsbreytingar. Nú á annað við. Daglega berast fréttir af möguleikum okkar á að hafa gríðarlegan arð af sameiginlegum auðlindum, ef arðinum væri rétt skipt. Ríkisstjórnin er helsti þröskuldurinn á þeirri vegferð.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×