Skoðun

Óbærilegur grátbrosleiki tilverunnar

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Auðvelt er að verða að athlægi meðal þjóða næst okkur. Leiðin er sú að láta sem það eðlilega sé óeðlilegt – jafnvel ómögulegt.

- Það þótti eðlilegt að hefja umsóknarferli að Evrópusambandinu án þess að hafa um það þjóðaratkvæðagreiðslu líkt og gert var hjá yfir 20 þjóðum.

Bindandi vilji Alþingis stóð til þessa, eins og hjá öðrum þjóðþingum. Öryggisventill lýðræðis er bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um fenginn aðildarsamning.

- Það þótti eðlilegt að ekki tækist að ljúka samningum um alla kafla aðildarsamnings á tæplega einu kjörtímabili – en ferlið ekki hnökralaust.

- Það þótti eðlilegt, en ekki tiltakanlega vinnusparandi, að fresta viðræðum skömmu fyrir íslenskar þingkosningar til þess að hafa frið um tvö meginmálefni hvað Evrópusambandsaðild varðaði, því nóg var (og er) um önnur deiluefni í sjávarútvegi og landbúnaði.

- Það þótti eðlilegt að andstæðingar aðildar lofuðu atkvæðagreiðslu um hvort hefja ætti aðildarviðræður að nýju eftir þingkosningar – eða ekki.

- Það þótti eðlilegt að að ný ríkisstjórn, eins þótt hún væri ekki hlynnt sjálfri aðildinni að ESB, léti samninganefnd landsins vinna áfram með her sérfræðinga, gæfi þjóðaratkvæði þann vilja til kynna. Slíkt þótti eðlilegt vegna þess að kröfur Íslendinga í meginmálaflokkum voru og eru ljósar – og lýðræðið leyfir slíkt.

- Það þótti eðlilegt verklag vegna þess að kæmi fram aðildarsamningur væri efnt til lýðræðislegra umræðna og þjóðaratkvæðagreiðslu. Íslensk ríkisstjórn væri ekki að hætta yfirlýstri stefnu um of því þjóðin myndi tala.

- Það þótti eðlilegt að jafnvel ESB-andstæðingar, jafnt sem efasemdarmenn og ESB-fylgjendur, vildu halda aðildarviðræðum áfram vegna mikilvægisins og óvissu í höfuðmálum heima og heiman.

- Það þótti eðlilegt að samkvæmt könnunum væri verulegur meirihluti fyrir áframhaldandi viðræðum við ESB enda þótt skoðanakannanir bentu til naums meirihluta gegn fullri ESB-aðild.

Ómöguleikinn í pólitískri fléttu ríkisstjórnarinnar er skyndilega aftur ljós. Hann felst nú í því að taka ranga ákvörðun, sneiða framhjá Alþingi jafnt sem óskum meirihluta landsmanna og líta fram hjá öllu eðlilegu í málefnum ESB-aðildar. Þar með er margfrægur ómöguleiki orðinn að grátbroslegu tilefni til athlægis.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×