Skoðun

Öldruðum refsað fyrir hjónaband og sambúð!

Björgvin Guðmundsson skrifar
Mikil viðbrögð voru við grein minni um skammarlega lágan lífeyri eldri borgara, sem birtist í Fréttablaðinu 8. þ.m. Ég fékk margar upphringingar út af greininni. Tekið var undir það að hækka þyrfti lífeyrinn ríflega svo unnt væri að lifa mannsæmandi lífi af honum en það væri ekki unnt í dag. Nokkrir bentu á, að þó lífeyrir einhleypinga frá TR væri lágur væri hann enn lægri hjá þeim, sem væru í hjónabandi eða í sambúð. (Í báðum tilvikum miðað við þá, sem einungis hafa tekjur frá TR.) Það er rétt. Þeir eldri borgarar sem eru í hjónabandi eða í sambúð fá lægri lífeyri en hinir, sem búa einir. Spurningin er sú, hvort það sé réttlátt. Ég tel svo ekki vera.

Það er búið að afnema það, að tekjur maka skerði lífeyri aldraðra frá almannatryggingum. Það var mannréttindabrot, að svo skyldi gert. En er það ekki líka mannréttindabrot að skerða lífeyri þeirra eldri borgara, sem búa með öðrum? Ég tel svo vera. Það á að afnema þessar skerðingar bæði hjá öldruðum og öryrkjum. Þessi lífeyrir er svo lágur, að það er út í hött að skerða hann vegna hjónabands eða sambúðar.

Afnám skerðingar tímabært

Ef litið er á þær fjárhæðir, sem lífeyrisþegar fá frá TR í janúar 2015 kemur eftirfarandi í ljós: Lífeyrir aldraðra sem búa einir er 192 þús. kr. á mánuði eftir skatt. Lífeyrir þeirra sem búa með öðrum er 172 þús. kr. á mánuði eftir skatt (hefur hækkað í janúar). Þetta er skerðing, sem nemur 20 þús. kr. á mánuði. Það er óeðlileg skerðing. Það á ekki að refsa öldruðum fyrir að vera í hjónabandi eða í sambúð. Það eru mannréttindi, að eldri borgarar haldi sömu upphæð lífeyris frá TR hvort sem þeir búa einir eða með öðrum. Árum saman var það mannréttindabrot framið á eldri borgurum, að lífeyrir þeirra frá almannatryggingum var skertur vegna tekna maka. Það var afnumið 2008.

Það er tími til kominn að afnema skerðingu lífeyris vegna búsetu með öðrum. Það er alltaf verið að fremja mannréttindabrot á öldruðum og öryrkjum. Þegar kjör lífeyrisþega voru skert 1. júlí 2009 vegna efnahagsáfalls þjóðarinnar tel ég, að mannréttindabrot hafi verið framið. Það er kveðið svo á í mannréttindasáttmálum, sem Ísland hefur samþykkt, að áður en kjör lífeyrisþega eru færð til baka vegna efnahagsáfalla skuli leitað annarra leiða. Það var ekki gert 2009.

Ríkið skuldar lífeyrisþegum

Ríkið skuldar lífeyrisþegum 12,6 milljarða kr. vegna kjaraskerðingarinnar frá 2009. Og ríkið skuldar öldruðum og öryrkjum 17 milljarða vegna kjaragliðnunar krepputímans. Lífeyrisþegar hafa ekki efni á því að lána ríkinu þessar upphæðir lengur. Þeir þurfa að fá þær greiddar strax.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×