Skoðun

Illa ígrunduð hækkun á mat og menningu

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Hækkun virðisaukaskatts á matvæli, bækur og tónlist hefur verið til umræðu allt frá því í haust þegar ríkisstjórnin lagði fram fjárlagafrumvarp og tekjuöflunarfrumvörp. Ríkisstjórnin vill hækka virðisaukaskattinn úr sjö prósentum í tólf á þessar vörur undir því yfirskini að slík breyting sé liður í að einfalda virðisaukaskattkerfið og á móti kemur lækkun á efra þrepi um eitt og hálft prósent.

Vinstri-græn munu gera sitt til að beita sér gegn hækkuninni enda ekki í þágu almennings í landinu.

Vandséð er hvernig þessar breytingar leiða til einföldunar á kerfinu; tvö þrep eru áfram tvö þrep. Þær munu hins vegar hafa áhrif á líf almennings. Sú röksemd stjórnarflokkanna að lækkun á sjónvörpum og ísskápum muni vega upp á móti hækkun á matvælaverði dugir skammt því að allir þurfa að neyta matvæla á hverjum degi meðan þær vörur sem lækka í verði eru þess eðlis að þær þarf einungis að kaupa örsjaldan á lífsleiðinni. Þá er ljóst að þær mótvægisaðgerðir sem hafa verið kynntar koma alls ekki til móts við alla þá sem verða fyrir áhrifum af þessum hækkunum.

Við umfjöllun Alþingis um málið hefur komið fram að lækkanir sem til dæmis hafa orsakast af gengissveiflum hafa sjaldnast skilað sér til fulls inn í verðlag en hækkanir skila sér hins vegar mun betur. Engin ástæða er til að ætla að annað gildi um skattabreytingar á borð við þessar. Ef ríkisstjórnin stendur við fyrirætlan sína stefnir því í að skattahækkunin skili sér að fullu í hærra verði á bókum, tónlist og matarkörfu almennings í landinu.

Annars vegar er um að ræða nauðsynjavörur sem allir þurfa á að halda daglega og hins vegar afurðir sem skipta miklu fyrir menningarstefnu þjóðarinnar, samfélagið og tunguna. Í þessum tillögum birtist forgangsröðun sem ég trúi ekki að nein sátt sé um. Hún skerðir kjör almennings og getur reynst stórskaðleg menningarstarfi í landinu sem hefur einmitt borið hróður okkar svo víða og var það sem við hölluðum okkur að þegar efnahagskerfið hrundi og Íslendingar þurftu að rifja upp hvað það er sem skapar samfélagið okkar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×