Skoðun

Steik, vín og bólgueyðandi

Teitur Guðmundsson skrifar
Sumarið er tíminn þegar fleiri en færri nota tækifærið og grilla sér til matar. Oftar en ekki er um að ræða kjöt þótt fiskurinn sé alltaf að verða vinsælli. Þá finnst býsna mörgum gott að fá sér aðeins í tána og drekka gott vín með matnum, jafnvel fá sér fordrykk, þá er ekki óalgengt að einstaka fái sér koníak með kaffinu.

Eflaust fara margir yfir strikið í bæði mat og drykk, en hvaða máli skiptir það svo sem þegar manni líður vel? Hægt er að velta upp mörgum tegundum af matseðlum og hver og einn á sinn uppáhalds, geri ég ráð fyrir. Þá skipta árstíðirnar kannski ekki svo miklu máli þrátt fyrir allt.

Sá sem líklega væri vinsælastur hjá þvagsýrugigtarpúkanum og líka hjá veitingamönnum víða um heim er algjör lúxusfæða. Hvítlauksristaður og smjörsteiktur humar sem forréttur, nautalund með ferskum grilluðum aspas, fylltum sveppum og bearnaise. Þessu fylgjandi að sjálfsögðu vín sem passa við hvern rétt, frönsk súkkulaðikaka með rjóma og tvöfaldur espresso. Þessi samsetning alveg steinliggur fyrir þá sem eiga á hættu að fá þvagsýrugigtarkast, því miður.

Þeir eru ófáir einstaklingarnir sem hafa vaknað upp um miðja nótt við nístandi sársauka, jafnvel brunatilfinningu og geta með engu móti legið kyrrir undir sænginni vegna verkja. Algengast er að fá þvagsýrugigtarkast í lið stórutáar en það getur svo sem verið hvaða liður sem er sem bólgnar upp. Eymslin eru svo mikil að það má varla koma við húðina yfir bólgna liðnum, hvað þá nota hann og stíga í. Algengara er að karlar á miðjum aldri fái slík köst, en konur eftir tíðahvörf er hópur sem ætti mögulega líka að vara sig á humri og nautalund á sama kvöldi.

En hvað er það sem gerist við slík köst? Þessir einstaklingar eru ekki með neina gigt í sjálfu sér en fá samt gífurlega bólgu í liði sem getur tekið margar vikur að ganga til baka. Skýringin er margþætt en í grunninn falla út kristallar í þá liði sem bólgna upp í kjölfar þess að þvagsýra safnast upp í líkama viðkomandi. Undir venjulegum kringumstæðum myndast þvagsýra við ákveðin efnaskipti og nýrun sjá um að losa hana út án þess að við finnum mikið fyrir því. Ef nýrun virka ekki sem skyldi eða við framleiðum of mikið af þvagsýru aukast líkurnar á því að fá kast.

Lífsstíll, mataræði og ýmsir sjúkdómar geta ýtt undir þetta ástand, en þar ber einna helst að telja neyslu á dýrapróteinum, fitu, ákveðnum tegundum grænmetis, einföldum kolvetnum, geri, áfengi og þá sérstaklega bjór ásamt reykingum. Þeir sem þjást af háum blóðþrýstingi, sykursýki og svokölluðum lífsstílssjúkdómum auk krabbameina eru í meiri áhættu. Svelti og ofþornun auk vissra lyfja eru einnig áhættuþættir svo það er ýmislegt sem ber að varast.

Greiningin er fyrst og fremst klínísk hjá þeim sem koma í kasti til læknis og þurfa nauðsynlega á lyfjum að halda til að tækla svæsinn verkinn sem fylgir bólgunni. Yfirleitt er einnig reynt að mæla þvagsýru í blóði og fá staðfestingu. Sumir fá bara einu sinni kast, en flestir fá ítrekað einkenni og þurfa nákvæmar leiðbeiningar um hvað beri að forðast auk þess sem margir fá lyf í forvarnarskyni. Ýmsar leiðir eru færar til að meðhöndla köstin sjálf, en þær byggjast fyrst og fremst á bólgueyðandi og verkjastillandi lyfjum. Hjá velflestum næst mjög viðunandi árangur og ekki verða neinar langtímaafleiðingar, þó er þekkt að fá húðbreytingar, útfellingar í festum og sinum auk þess að geta myndað nýrnasteina.

Það er því almennt mælt með hollu, trefjaríku fæði, ríkulegri neyslu á vatni, draga úr áfengisneyslu og tóbaksnotkun, hreyfa sig reglubundið og draga úr álagi og streitu. Það rímar við hið fornkveðna að halda góðu jafnvægi milli líkama og sálar, en matur er reyndar stór þáttur í því.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×