Skoðun

Er hægt að vera á móti?

Árni Páll Árnason skrifar
Í þremur greinum hér í Fréttablaðinu hef ég rakið helstu ágalla á skuldafrumvörpum ríkisstjórnarinnar.

Höfuðágallinn er óréttlætið. Aðgerðin nær ekki með sambærilegum hætti til fólks í sambærilegri stöðu og engin tilraun er gerð til að greina þann hóp sem er í vanda og hefur mátt þola að skuldir hafa hækkað meira en húsnæði.

Engin tilraun hefur verið gerð til að skilja frá þá sem hafa hagnast á fasteignakaupum sínum á undanförnum áratugum, hafa því ekkert tjón liðið og hafa mjög lítinn húsnæðiskostnað. Það er óskiljanlegt að ríkisstjórnin leggi allt kapp á að nýta almannafé til að lækka skuldir auðugasta fólks landsins. Af hverju má ekki setja tekju- og eignamörk á aðgerðina?

Skuldaleiðréttingin nær ekki til mikils fjölda fólks sem er með verðtryggð lán og verðtryggðan húsnæðiskostnað. Það er óskiljanlegt og órökstutt að leigjendur og búseturéttarhafar séu með sérstöku ákvæði undanþegnir leiðréttingu. Það er auðvelt að koma til móts við þá sem leigja hjá lokuðum leigufélögum og eigendur búseturéttar.

Við í Samfylkingunni munum gera tillögu um að ríkustu 15% þjóðarinnar fái skerta skuldalækkun og ríkustu 5% þjóðarinnar fái ekki skuldaniðurfellingu. Við munum líka leggja til að einstaklingar með skuldlausa eign yfir 20 milljónum og hjón með skuldlausa eign yfir 30 milljónum króna fái ekki skuldaniðurfellingu.

Þessi afar hóflega takmörkun aðgerðarinnar í réttlætisátt dugar til að fjármagna sambærilega úrlausn fyrir leigufélög og húsnæðissamvinnufélög. Þá munu Félagsstofnun stúdenta og hússjóður Öryrkjabandalagsins geta lækkað leigu til sinna leigjenda, til samræmis við leiðréttinguna sem þeir fá sem búa í eigin húsnæði. Þá geta búseturéttarhafar í Búseta og Búmönnum fengið sömu úrlausn og aðrir.

Þessar breytingar mundu gera aðgerðirnar réttlátari og sanngjarnari. Er hægt að vera á móti þeim? Þingmenn ríkisstjórnarinnar þurfa að svara þeirri spurningu á Alþingi í vikunni.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×