Skoðun

Borgardagur jarðar

Hjálmar Sveinsson skrifar
Haldið hefur verið upp á Dag Jarðar síðan 1970 þegar vitund almennings um mikilvægi umhverfismála var að vakna. Jarðardeginum, 22. apríl, er ætlað að efla þessa vitund. Milljónir manna í 190 löndum taka þátt í honum.

Mikilvægi umhverfisverndar hefur líklega aldrei verið jafnmikið og í dag. Í nýrri loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna er varað við því að hlýnun jarðar af mannavöldum muni hafa alvarleg áhrif á samfélög og vistkerfi um allan heim.

Jarðardagurinn er í ár helgaður borgunum á jörðinni. Sameinuðu þjóðirnar hafa hleypt af stokkunum átaki sem kallast „Grænar borgir“. Markmiðið er að hvetja borgarbúa og borgaryfirvöld til að einbeita sér að því að skipuleggja borgirnar betur, minnka losun gróðurhúsalofttegunda og nota meira af endurnýjanlegri orku.

Íslendingar geta ekki staðið álengdar, langt norður í Atlantshafi, og litið á yfirvofandi hörmungar sem tækifæri til að græða á. Í Reykjavík hefur náðst þverpólitísk sátt um nýtt aðalskipulag þar sem sett eru fram metnaðarfull markmið um að umhverfisgæði í Reykjavík verði til fyrirmyndar á heimsvísu.

Í skipulaginu er sett fram áætlun um að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda um 35% til ársins 2030, meðal annars með því að nota vistvæna orku á bílaflotann í auknum mæli. Gert er ráð fyrir að stytta vegalengdir í borginni með því að þétta hana. Þéttingin er mikilvæg forsenda fyrir vistvænum úrbótum í samgöngumálum. Hlutdeild strætó í ferðum í og úr vinnu mun vaxa úr 4% í 12% og hlutdeild gangandi og hjólandi fer úr 19% í 30%. Rétt er að taka fram að náist þessi markmið, verðum við Reykvíkingar með svipað hlutfall vistvænna ferðamáta árið 2030 og íbúar í Þrándheimi í dag. Þrándheimur mun vera á svipaðri breiddargráðu og Reykjavík og íbúar álíka margir.

Við Reykvíkingar höfum alla möguleika til að skipuleggja vistvæna, og um leið heilsusamlega, hagkvæma og aðlaðandi borg. Umhverfið er á okkar ábyrgð. Okkar allra. Dagur Jarðar minnir okkur á það.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×