Skoðun

Samfélag fyrir alla – 1. maí 2014

Gylfi Arnbjörnsson skrifar
Grundvöllur tilvistar og starfs verkalýðshreyfingarinnar er auk hefðbundinnar kjarabaráttu að berjast fyrir samfélagi jafnréttis og jafnra tækifæra. Yfirskrift 1. maí 2014 endurspeglar þessa sýn verkalýðshreyfingarinnar. En af hverju er þessari kröfu haldið á lofti núna?

Misskipting hefur farið vaxandi í þjóðfélaginu á mörgum sviðum. Þessi þróun birtist með ýmsum hætti.

Kostnaður almennings vegna lyfja og læknisþjónustu er kominn út fyrir öll þolmörk. Afleiðingin er ekki aðeins sú að þessi kostnaður hefur mjög neikvæð áhrif á fjárhag fólks heldur þurfa sífellt fleiri að neita sér um nauðsynleg lyf og læknisþjónustu.

Tryggt og mannsæmandi húsnæði er ein af forsendum mannsæmandi lífsskilyrða. Mikill og vaxandi fjöldi fjölskyldna og einstaklinga er á hrakhólum vegna húsnæðisskorts eða þarf að sætta sig við óásættanlegar aðstæður í húsnæðismálum af fjárhagslegum ástæðum. Þá er öllum almenningi og sérstaklega ungu fólki ómögulegt að kaupa húsnæði við núverandi aðstæður. Við þessu hefur ASÍ brugðist með því að kynna tillögur um nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd og nú fyrir fáeinum dögum nákvæmlega útfærðar tillögur og kostnaðarmat á nýju félagslegu húsnæðiskerfi fyrir tekjulægsta hópinn.

Tækifæri ungs fólks til að sækja sér menntun við hæfi er mikilvæg forsenda virkrar þátttöku á vinnumarkaði og starfstækifæra í framtíðinni. Menntakerfið er í dag ekki að svara kröfum um möguleika til náms sem svara þörfum einstaklinga og atvinnulífs. Þá eru sterkar vísbendingar um að hópur fólks hafi ekki lengur efni á að senda börn sín í skóla eftir að skyldunámi líkur vegna kostnaðar.

Atvinna við hæfi og þátttaka á vinnumarkaði er sjálfsögð krafa og lykillinn að virkri þátttöku í samfélaginu. Virkni og almenn atvinnuþátttaka er jafnframt mikilvæg forsenda velferðarsamfélagsins. Þúsundir einstaklinga eru atvinnulausar. Þetta á ekki síst við um mikinn fjölda ungmenna sem aldrei hafa náð að festa sig í sessi á vinnumarkaði.

Við viljum ekki þessa þróun. Við viljum ekki svona samfélag. Verkalýðshreyfingin vill byggja upp réttlátt þjóðfélag. Samfélag þar sem allir fá að njóta sín og tækifæri til að blómstra, óháð efnahag.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×