Skoðun

Ekkert afturkall

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Ný lög um náttúruvernd voru samþykkt vorið 2013 og var ætlað að taka gildi þann 1. apríl 2014. Lögin fela í sér mikla framför í lagaumhverfi náttúruverndar og eru skólabókardæmi um hvernig á að standa að vandaðri lagasetningu. Þau byggja á vönduðum undirbúningi með aðkomu fræðimanna og fagaðila og síðan ítarlegri umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem komið var til móts við fjölda athugasemda hagsmunaaðila áður en þau voru samþykkt.

Það vakti því reiði og furðu þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, lagði í haust fram frumvarp um að afturkalla þessi nýsamþykktu náttúruverndarlög áður en þau tækju gildi þann 1. apríl 2014. Hefði frumvarp ráðherrans náð fram að ganga hefði fimm ára vinna farið í ruslið og horfið yrði aftur til gildandi náttúruverndarlaga frá 1999 sem eru orðin úrelt þar sem þróun í þessum málaflokki hefur verið hröð.

Afturkallsfrumvarpið fékk afar góða, vandaða og málefnalega umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Þar kom í ljós að mun færri og smærri álitamál voru uppi um nýju náttúruverndarlögin en sumir höfðu talið. Ágreiningur um utanvegaakstur og tengd mál reyndist mun minni en látið hafði verið að liggja og skemmra reyndist á milli skoðana á ákvæðum um varúðarreglu og sérstaka vernd en virtist í upphafi.

Þá voru nefndarmenn sammála um mikilvægi almannaréttarins sem almenningur er nú orðinn meðvitaðri um eftir að hugmyndir um gjaldtöku við helstu náttúruperlur þjóðarinnar fóru á flug. Nefndin náði að lokum saman um þá málamiðlun að hafna afturkallinu, fallast á að byggja á heildarhugmyndafræði hinna nýju laga og fresta gildistöku þeirra til 1. júlí 2015 þannig að hægt sé að vinna að úrbótum í samstarfi við ráðherra og skapa varanlega sátt um málið.

Þó að ég hefði helst viljað að ný lög tækju gildi nú 1. apríl er ég sátt við niðurstöðu nefndarinnar. Afturkall umhverfis- og auðlindaráðherra er út af borðinu og stefnt er að því að ný og framsækin náttúruverndarlög taki gildi árið 2015. Það skiptir svo sannarlega máli fyrir íslenska náttúru og íslenska þjóð.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×