Skoðun

Áfram lækkun skulda og skatta - forgangsmál

Jón Finnbogason skrifar
Efst á blaði stefnuskrár Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi er niðurgreiðsla á skuldum bæjarsjóðs og lækkun skatta.  Verði haldið áfram á þeirri braut mun það tryggja þann trausta grunn sem skynsamleg fjármálastjórn hefur skilað.  Niðurgreiðsla skulda mun auka fé til ráðstöfunar í framtíðinni um 80 – 100 milljónir á ári fyrir hvern milljarði sem við greiðum niður skuldir okkar í dag.

Það er mikilvægt að staldra hér við og nefna skuldir okkar.  Staða bæjarsjóðs er ekki einkamál einhverra annarra.   Svigrúm til þess að veita góða þjónustu og framúrskarandi aðstöðu í Kópavogi byggir á getu bæjarsjóðs til að takast á við slík verkefni.  Það snertir því með beinum hætti alla þá sem búa í Kópavogi hvernig staða bæjarsjóðs er hverju sinni.  Íbúar Kópavogs voru um 32 þúsund í árslok 2013.  Þar sem tekjur af útsvari er stærsti hluti tekna bæjarsjóðs er rétt að draga fram að íbúar á aldrinum 20 til 67 ára voru um 20 þúsund.

Heildarskuldir og skuldbindingar Kópavogsbæjar voru rúmlega 42 milljarðar um síðustu áramót eða um 2,2 millj. á hvern íbúa Kópavogsbæjar á aldrinum 20 til 67 ára.  Á árinu 2013 var um 71% af tekjum Kópavogsbæjar beinir skattar sem íbúar bæjarins greiddu, eða um 62% í formi útsvars og um 9% fasteignaskattur.  Vissulega eru eignir á móti skuldum Kópavogsbæjar en þær felast í þeim mikilvægu innviðum sem byggðir hafa verið upp á undanförnum árum, s.s. byggingarsvæði sem eru klár til úthlutunar.  En skuldir þarf að greiða til baka.  Sjálfstæðismenn hafa markað þá stefnu að allar tekjur af lóðaúthlutunum fara til niðurgreiðslu skulda og er mikilvægt að svo verði áfram.  Verði það ekki gert munum við þurfa að greiða vexti af skuldum Kópavogsbæjar áratugum saman.  Sá reikningur verður að borinn uppi af okkur sem búum í Kópavogi í formi hærri skatta en ella.

Vextir af skuldum Kópavogsbæjar eru raunverulegir. Á árinu 2013 voru gjaldfærð fjármagnsgjöld um 2,3 milljarðar en langstærstur hluti skulda Kópavogsbæjar við lánastofnanir er í formi verðtryggðra skulda sem báru við árslok að meðaltali 4,43% vexti. Í umhverfi 2,5 – 3,5% verðbólgu eru það um 7 til 8% vextir og enn hærri ef verðbólga fer aftur af stað.  Það er því hagsmunamál okkar allra í Kópavogi að allt kapp verður lagt á að greiða niður skuldir bæjarsjóðs eins hratt og unnt er.

En mikilvægt er að hafa í huga að Kópavogsbær stendur mjög vel að vígi til að mæta þeim breyttu aðstæðum sem nú eru að skapast í efnahagslífinu.  Mikil eftirspurn er eftir lóðum til þess að byggja íbúðir. Við þurfum að úthluta þeim af skynsemi.  Við þessar aðstæður er því mögulegt að horfa til framtíðar þar sem lækkun skulda bæjarsjóðs verði sett í algjöran forgang en það mun skapa enn frekari grundvöll til lækkunar á sköttum og öðrum gjöldum sem lögð eru á íbúa Kópavogsbæjar en það á að vera forgangsmál þeirra sem stjórna Kópavogsbæ á hverjum tíma.

Áfram Kópavogur.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×