Skoðun

Sveitalubbi fer í framboð

Kristín Elfa Guðnadóttir skrifar
Ég er óttalegur sveitalubbi en hef samt ekki búið lengur í sveit en sumarlangt. Mér finnst sveitin yndisleg og kyrrlát. Mér finnst skemmtilegra að liggja hjá litlum læk en fara í bíó. Ég vil heldur djöflast í heyskap en hlaupa maraþon. Ég vil frekar anda að mér hrossataðslykt en verja síðdegi á ilmvatnsbarnum í Hagkaup, efri hæð. Allir barir og bjórar heims blikna hjá stjörnubjartri vetrarnótt utan bæjarmarkanna.

Samt elska ég Reykjavík svo mikið að ég hef samið um hana heilu drápurnar. Hún er full af fólki, augnablikum, litum.

Og því miður: Eymd.

Ekki sams konar eymd og kálfurinn minn hún Skutla upplifði þegar ég gaf henni pelamjólk í staðinn fyrir að skutla henni á spena eins og hún átti von á. Eða eymdina sem umlukti mig þegar ég fann ekki Skutlu mína einn daginn en rakst svo utan í afskorinn hausinn af henni þegar ég þreifaði mig eftir rennibekknum í rökkrinu inni á verkstæði.

Frekar þessi vonleysislega eymd sem ýlfrar: Það hlustar enginn á mig.

Ég elska Reykjavík en ég er ekki alltaf dús við hana. Hvers vegna eru svona margir Reykvíkingar í þeim sporum að eygja litla sem enga von um að nokkurn tímann verði hlustað á þá?

Sem sveitalubbi get ég ekki sætt mig við það enda fékk ég haminn af Skutlu með heim um haustið til að súta hann. Enginn er dauður fyrr en hann er dauður og jafnvel ekki þá. Við getum og eigum að hjálpa fólki til upprisunnar sem felst í valdeflingu, hlustun, raunverulegum lýðræðisúrbótum.

Það vilja Píratar allra helst fyrir Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×