Skoðun

Bolaflokkurinn

Bjarni Þór Sigurbjörnsson skrifar
Í fyrsta sinn á ævinni geng ég óákveðinn til kosninga og í fyrsta sinn á ævinni er líklegt að ég skili auðu í kosningum. Þess vegna er allt eins gott að láta einkamálaauglýsingu flakka og athuga hvort einhver svarar kallinu á síðustu stundu. Auglýsingin hljóðar svo:

Óskað er eftir stjórnmálaflokki. Hann skal hvorki vera of langt til hægri né of langt til vinstri. Hann má vera í meðalholdum og hafa gaman af Derrick. Hann skal bæði vera flokkur jafnaðarmanna og flokkur frjálshyggjumanna. Hann skal vera flokkur þess meginþorra Íslendinga sem í senn styður frelsi einstaklingsins og jöfn tækifæri og velferð samborgaranna. Hann skal vera flokkur hins íslenska bols.

Þessi flokkur verður að viðurkenna að kynjakvótar og fléttulistar eru hallærislegir, en líka að þrír rykfallnir karlmenn í þremur efstu sætum framboðslista er jafn glatað. Flokkurinn skal bæði vera Conchita Wurst og Vigdís Finnbogadóttir, en hvorki Jörg Haider né Vigdís Hauksdóttir. Hann skal vera þjóðernissinni á 17. júní en heimsborgari alla aðra daga.

Þessi flokkur verður að leyfa allar skoðanir og öll trúarbrögð. Hann skal leyfa áfengi í matvöruverslunum, matvörur í klámverslunum og klám í áfengisverslunum. Hann skal leyfa fólki að hugsa og haga lífi sínu eins og því sýnist. Hann má líka eiga gæludýr.

Flokkurinn verður á sama tíma að viðurkenna að fólk fæðist ekki jafnt og vera tilbúinn að gera sitt til að tryggja jafnrétti allra til náms og heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. En hann má þó heldur ekki vera hræddur við að prófa mismunandi rekstrarform á þessum sviðum. Hann verður bæði að geta fílað einkavæðingu og sagt fokk jú við einkavæðingu.

Það skiptir ekki beinlínis máli hvar og hvernig þessi flokkur býr, en það er kostur ef hann vill frekar hafa tekk mublu en flugvöll í forstofunni hjá sér. Hann má vera einhleypur og hann má vera í sambandi. Hann má jafnvel vera í Evrópusambandi ef bolurinn er til í það (a.m.k. verður hann að leyfa bolnum að segja skoðun sína á því, hvort sem það er í þjóðaratkvæðagreiðslu eða bara með því að skipta brauðstöngum út fyrir ESB í Dominos-appinu). Hann má líka hafa gaman af U2.

Þetta er held ég svona nokkurn veginn það sem til þarf og í raun ekki mjög flókið. Ef einhver stjórnmálaflokkur eða framboð telur sig uppfylla framangreint má viðkomandi hafa samband fyrir 31. maí nk. A.v.á.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×