Skoðun

Næturstrætó um helgar í og úr Hafnarfirði

Katrín Ósk Ásgeirsdóttir skrifar
Ungt fólk vill gjarnan nota strætó því það er smart að spara  og eiga pening í aðra skemmtilega hluti. Strætó er hagkvæmur kostur sem fleiri vildu geta nýtt sér betur á kvöldin um helgar.

Síðasti vagn úr Hafnarfirði fer kl. 23.36 til Reykjavíkur en oft er fólk ekki að fara af stað í bæinn fyrr en um eitt leytið. Strætó kemur því ekki til greina sem valkostur þegar haldið skal í fjörið.  

Síðasti vagn í fjörðinn fer úr miðbæ Reykjavíkur kl. 23:20.  Meira að segja Öskubuska fékk að vera lengur úti í ævintýrinu.  Unga fólkið sem leggur leið sína í miðbæ Reykjavíkur á kvöldin um helgar og margir sem eldri eru væru líka alveg til í að geta tekið strætó heim.

Erlendis þykir það jafn eðlilegt að nota strætó og að ungt fólk skemmti sér. Því ekki á Íslandi eða að minnsta kosti í Hafnarfirði?  

Leið 1 er vinsælasta leiðin hjá strætó með lang flesta farþegana og hefur orðið töluverð aukning undanfarin misseri á notkun strætisvagna almennt.  Þess vegna er fullkomlega raunhæft að skoða hvort ekki er hægt að bæta þjónustuna og fjölga ferðum á kvöldin, sérstaklega um helgar.

Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði hefur það á stefnuskrá sinni  að fjölga ferðum strætó og leggur til að gerð verði tilraun með næturstrætó um helgar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×