Skoðun

Réttlátari Reykjavík

Sóley Tómasdóttir skrifar
Það er algerlega óásættanlegt að misskipting og ójöfnuður skuli halda áfram að aukast í samfélaginu, nú þegar jákvæð teikn eru á lofti í efnahagsmálum. Það hlýtur því að verða algert forgangsmál allra flokka í borgarstjórn á næsta kjörtímabili að stöðva þessa þróun, auka jöfnuð frekar en ójöfnuð og tryggja sanngjarnara samfélag.

Gjaldfrjáls grunnþjónusta

Afnám gjaldskráa fyrir leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili er stórt og metnaðarfullt markmið í þessa veru. Þannig tryggjum við öllum börnum menntun og gott atlæti óháð efnahag á sama tíma og við bætum kjör barnafjölskyldna.

Á meðfylgjandi mynd má sjá útgjöld ólíkra fjölskyldna vegna þessarar sjálfsögðu þjónustu. Ljóst er að afnám gjaldskráa mun hafa gríðarleg áhrif á ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna fyrir utan að skapa sanngjarnara samfélag án ósanngjarnra jaðarskatta.

Stóra samhengið

Áætlun okkar Vinstri grænna snýst um að auka fjármuni til skóla- og frístundasviðs um 750 milljónir og lækka gjaldskrár um 25% á hverju ári fram til ársins 2018. Upphæðin virðist vissulega vera há. En í hinu stóra samhengi er þetta tiltölulega lág upphæð, rétt um 0,9% af heildartekjum aðalsjóðs borgarinnar. Hærri upphæðum hefur sannarlega verið varið – án sýnilegs samfélagslegs ávinnings.

Kostnaður vegna tengingar Hverahlíðarvirkjunar við Hellisheiðarvirkjun er áætlaður á fimmta milljarð króna á næstu árum. Kostnaður vegna fyrirhugaðra túrbínukaupa Orkuveitunnar sem svo ekki urðu að veruleika hefur þegar numið þremur milljörðum króna. Reykjavíkurborg greiddi KSÍ 550 milljónir, bara vegna umframkostnaðar við stúkubyggingu í Laugardal á sínum tíma, en í heild kostaði hún um 1.700 milljónir. Allt voru þetta skyndileg fjárútlát sem hægt var að fjármagna án þess að borgarsjóður færi á hliðina. Peningarnir eru til – forgangsröðum þeim í þágu barna.

Óhefðbundið en nauðsynlegt

Stefna Vinstri grænna um gjaldfrelsi tekur á raunverulegu vandamáli og hefur áþreifanleg áhrif á afkomu allra barnafjölskyldna. Hún snýst ekki um vatnsrennibrautagarða eða mislæg gatnamót. Hún snýst um að fjárfesta í eflingu grunnþjónustunnar, auknum jöfnuði og bættum aðstæðum fólks.

Í borgarsjóði eru 82 milljarðar. Okkur kjörnum fulltrúum ber að forgangsraða þeim. Vinstri græn leggja aukna áherslu á þjónustu við börn og munu færa til fjármuni í þeirra þágu. Það er nauðsynlegt og sjálfsagt og alveg jafn einfalt og þegar fjármunirnir eru færðir eitthvað annað.

Viltu koma skoðun á framfæri í aðdraganda kosninga? Lesendur Vísis geta sent inn greinar á [email protected]. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×