Skoðun

Ekki gefa mér peninga!

Kristín Soffía Jónsdóttir skrifar
Í nóvember 2004 skokkaði ég niður í banka og tók 100% lán til þess að kaupa mína fyrstu íbúð. Ég setti íbúðina á sölu stuttu eftir hrun og seldi hana um áramótin 2008/2009.

Á þessum fjórum árum fékk ég einhverja hundrað þúsund kalla í vaxtabætur og þegar ég seldi hana þá seldi ég hana með hagnaði, ekkert miklum, en aftur komu þarna einhverjir hundrað þúsund kallar.

Þetta kallar ný ríkisstjórn forsendubrest og ætlar að bæta mér hann. Ég fæ kannski ekkert mikið en aftur, þetta verða einhverjir hundrað þúsund kallar. Í dag er ég skuldlaus og með fínar tekjur, ég er að fá þessa peninga gefins fyrir það eitt að hafa keypt mér íbúð sem ég græddi á. Ég er barnlaus og fæ því ekki barnabætur. Lækkun þeirra snertir mig ekki neitt, ég hef ekki keypt aðra íbúð síðan og fæ því ekki vaxtabætur og fékk ekki heldur sérstakar vaxtabætur þegar þær buðust – ég er því ónæm fyrir þeirri skerðingu líka.

Ég borga skatt í skattþrepi tvö og boðuð skattalækkun mun færa mér auka tvö þúsund krónur á mánuði.

Ég er greinilega í markhópi þessarar ríkisstjórnar og hún keppist við að gefa mér peninga. Ég er ungfrú forsendubrestur, ég er hópurinn sem „fær aldrei neitt“, ég er hluti af þeim hópi sem er búinn að vera „skattpíndur“. Ég er að fá leiðréttingu á því mikla óréttlæti sem ég varð fyrir.

Vandamálið er bara að ég hef það fínt peningalega en mér líður illa þegar ég hugsa til þeirra sem fjármagna þessa fáránlegu peningagjöf til mín.

Systir mín er sjálfstæð móðir með tvo stráka, hún er hjúkrunarfræðingur og starfar á Landspítalanum. Ríkið borgar henni ekki há laun, hún fékk fullar vaxtabætur og fullar barnabætur. Ekkert háar upphæðir, einhverja hundrað þúsund kalla – en það voru samt peningar sem borguðu sumarfrí fyrir hana og strákana og gerðu lífið þeirra aðeins auðveldara og skemmtilegra.

Systir mín er eitt dæmi, í kringum mig er fullt af ungu barnafólki sem er að missa meðgjöf sem það þurfti á að halda til þess að ég geti upplifað réttlæti.

Kæra ríkisstjórn, það er ekkert réttlæti í þessum aðgerðum – vinsamlegast hættið að gefa mér peninga.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×