Skoðun

Mér kross­brá

Elín Hirst skrifar

Marta Andreasen, Evrópuþingmaður breska Íhaldsflokksins, heimsótti Ísland nýlega. Marta varð víðfræg þegar hún var rekin úr toppstöðu sem fjármálastjóri framkvæmdastjórnar ESB fyrir nokkrum árum þegar hún neitaði að skrifa upp reikninga sambandsins. Henni blöskraði hvernig farið var með almannafé og þær aðferðir sem menn notuðu til að fegra myndina. Í því sambandi rifjaði hún upp að reikningar ESB hefðu ekki verið samþykktir síðastliðin 18 ár, því enginn endurskoðandi treysti sér til þess skrifa upp á þá.



Mér hreinlega krossbrá þegar ég hlustaði á Evrópuþingmanninn ræða þessa hluti. Sjálf er ég á móti því að Ísland gangi í ESB en lýsingar Andreasen á sambandinu og vinnubrögðum þess við meðferð fjármuna skattgreiðenda eru með ólíkindum. Marta fullyrðir til að mynda að embættismannakerfið innan ESB sé gjörspillt og enginn viti í raun hvað verði um alla þá peninga sem um hendur þess fara.



Eftir að Andreasen var rekin úr starfi sínu hjá framkvæmdastjórn ESB bauð hún sig fram til setu á Evrópuþinginu. Hún er eindregið þeirrar skoðunar að Bretar eigi að yfirgefa ESB, en það eru hins vegar mörg ljón á veginum. Marta segir auðvelt fyrir lönd eins og Ísland að fá inngöngu í ESB en erfitt og nær ómögulegt að yfirgefa sambandið. Íslendingar séu í raun afar heppnir að hafa aldrei villst inn í ESB.

Í Bretlandi er allt regluverk sniðið eftir forskrift ESB og allir viðskipta- og milliríkjasamningar Breta tengjast ESB-aðildinni. Þá vinnu verði að fara í alveg upp á nýtt og muni taka Breta mörg ár, komi til þess að þeir hverfi úr sambandinu.



Innan breska Íhaldsflokksins eru skiptar skoðanir um Bretland og ESB. David Cameron forsætisráðherra vill ekki yfirgefa sambandið, en vaxandi stuðningur er hins vegar innan flokksins við að segja bless við ESB, sem og meðal breskra kjósenda.



Andreasen segir ríkisstjórn Íslands hafa gert hárrétt með því að hætta aðildarviðræðunum og hætta að þiggja styrki ESB í leiðinni. Hún varar Íslendinga hins vegar við að ESB muni reyna allt sem það getur til að fá Ísland inn í sambandið. ESB hafi yfir gríðarlegum fjármunum að ráða sem það muni nota óspart í áróðri sínum.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×