Skoðun

VG og framtíðin!

Steingrímur J. Sigfússon skrifar
Nú rúmri viku bak kosningum og meðan vöfflubakstur stendur yfir á vegum framsóknar- og sjálfstæðismanna er ekki úr vegi að tjá hug sinn til kosningaúrslitanna. Hitt bíður betri tíma að óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og mun ekki af veita, hver sem hún verður. Sú ríkisstjórn mun njóta góðs af þeim ótvíræða árangri sem náðst hefur í efnahagslegri endurreisn landsins frá hruni. Himinn og haf eru milli aðstæðna nú og þeirra fordæmalausu erfiðleika sem við blöstu á öndverðu ári 2009. Mörg stór og vandasöm úrlausnarefni eru engu að síður fram undan og efnahagsóáran í mestallri Evrópu smitar í vaxandi mæli hingað heim. Við þurfum því áfram að vanda okkur.

Eins og yfirleitt féllu úrslit nálægt síðustu skoðanakönnunum fyrir kosningar en þó vörðum við Vinstri græn stöðu okkar ívið betur en flestar spár höfðu gert ráð fyrir. Það rímaði vel við það andrúmsloft sem maður varð áskynja á lokasprettinum. Við komum standandi niður eftir vel útfærða og málefnalega kosningabaráttu og engin óábyrg loforð munu þvælast fyrir okkur í framhaldinu. Formaður VG, Katrín Jakobsdóttir, var að mati undirritaðs og að öllum öðrum ólöstuðum sigurvegari þessarar kosningabaráttu. Skýr, málefnaleg og traust framkoma hennar skoraði meðal þjóðarinnar langt út fyrir raðir þeirra sem að lokum kusu hreyfinguna.

Komin til að vera

Vinstrihreyfingin grænt framboð verður svo sannarlega hluti af framtíðinni og er fyrir löngu komin til að vera í íslenskum stjórnmálum. Með tæplega 11% fylgi í þessum kosningum og sjö þingmenn er okkur ekkert að vanbúnaði að leggja upp í nýtt kjörtímabil hvað sem það ber í skauti sínu og hvaða verkefni sem það færir okkur í hendur. Verði hlutskipti okkar stjórnarandstaða gefst á nýjan leik meiri tími og hægari aðstæður til að sinna innra flokksstarfi, til að uppfæra og efla málefnastarf og sinna ýmsu því sem annríki björgunarstarfsins í ríkisstjórn í á fimmta ár skammtaði nauman tíma. Vissulega getur átt eftir að reyna á styrk okkar í stjórnarandstöðu ef afturhvarf til stefnu og stjórnarhátta fyrirhrunsáranna verður veruleiki stjórnmálanna á Íslandi á nýjan leik. En þá verður það uppbyggilegt aðhald en ekki einhliða eyðileggingarstarf í anda fráfarandi stjórnarandstöðu.

Að sama skapi erum við reynslunni ríkari og öflugri eftir eldskírn í ríkisstjórn við fordæmalaust erfiðar aðstæður komi til okkar kasta á þeim vettvangi. Nú, rétt eins og í upphafi árs 2009, er það mín sannfæring að við Vinstri græn eigum að hlýða kalli ef skyldan bíður og við trúum því að það verði landi og þjóð til góðs.

Glaðbeitt á vit framtíðarinnar

Með öðrum orðum, við getum lagt glaðbeitt upp í nýhafið kjörtímabil. Á fundum og í samtölum við liðsmenn Vinstri grænna undanfarna daga eftir kosningar skynja ég samstöðu, bjartsýni og baráttuhug. Við getum verið og eigum að vera stolt af verkum okkar undanfarin ár, þó það hafi vissulega verið ár erfiðra verkefna og fórna. En hvort tveggja er að stjórnmál snúast ekki um það að hafa það huggulegt fyrir sjálfan sig eða flokk sinn og hitt að menn leggja nú ýmislegt á sig fyrir minna en að bjarga landi sínu frá þjóðargjaldþroti. Okkur Vinstri grænum eru allir vegir færir úr núverandi stöðu og sama gildir um Ísland verði málum þess ekki klúðrað.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×