Skoðun

Ís­lensk börn og kyn­hegðun

Eygló Harðardóttir skrifar

Íslendingar byrja snemma að stunda kynlíf. Í könnun frá 2006 um heilbrigði skólabarna í heiminum kom í ljós að 29% íslenskra drengja á aldrinum 15-16 ára höfðu stundað kynmök. Hlutfallið var töluvert hærra meðal stúlkna, eða 36% og var einungis hærra hjá dönskum (40%) og grænlenskum (66%) stúlkum. Fjöldi bólfélaga er einnig hæstur hér á landi samanborið við önnur norræn ríki. Á sama tíma er notkun smokka með því lægsta á Vesturlöndum og notkun hormónagetnaðarvarna hefur dregist saman, að undanskilinni sölu á neyðargetnaðarvörn.



Helstu ástæður þess að börnin okkar byrja snemma að sofa hjá er vegna þrýstings frá vinahópnum, skortur á samskiptum og áfengisneysla.



Þessar staðreyndir eru ekki nýjar af nálinni þótt umræðan undanfarna daga um að stúlkur allt niður í ellefu ára gamlar séu að stunda kynlíf gefi annað til kynna. Við getum haldið áfram að hunsa þessar staðreyndir. Það hefur gengið ágætlega hingað til og árangurinn eftir því.



Tæp 40% stúlkna og fjórðungur drengja á aldrinum 16-19 ára höfðu séð eftir því að stunda kynlíf. Tíðni klamydíu og kynfæravartna er með því hæsta sem þekkist og barneignir í aldurshópnum 15-19 ára eru mun fleiri en í öðrum norrænum ríkjum. Árið 2008 var fjöldi barna á hverjar 1.000 konur 15-19 ára 14,6 á Íslandi, 9,3 í Noregi, 8,6 í Finnlandi og 6,0 í Danmörku og Svíþjóð.



Við verðum að axla ábyrgð sem samfélag á því að börnin okkar stunda kynlíf alltof snemma, á óheilbrigðan og óábyrgan máta og grípa til aðgerða. Við gerum það með því að auka fræðslu um kynlíf og mikilvægi þess að vera eldri og tilfinningalega tilbúinn þegar byrjað er að stunda kynlíf. Með því að fjölga unglingamóttökum og að framhaldsskólar séu með heilsugæslu. Það gerum við með því að auka aðgengi að ódýrari hormónagetnaðarvörnum og smokkum og forvarnir gegn áfengisneyslu.



Hættum að hunsa staðreyndir, - börnin okkar eiga einfaldlega betra skilið.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×