Skoðun

Bil milli bíla og öryggi um borð í vögnum

Reynir Jónsson skrifar
Öryggisdagar Strætó bs. og VÍS eru nú hafnir og standa út nóvembermánuð. Á Öryggisdögum hvetjum við alla þátttakendur í umferðinni til að sýna aðgát, tillitssemi og ábyrga hegðun á götum úti og taka þannig þátt í því með okkur að auka öryggi allra í umferðinni.

Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á að halda hæfilegu bili á milli bíla og fækka með því aftanákeyrslum, sem eru algengasta orsök umferðaróhappa á höfuðborgarsvæðinu. Ennfremur verður hugað að öryggi farþega þegar upp í vagninn er komið, hvatt til aukinnar aðgæslu og bent á leiðir til að fækka óhöppum um borð í strætó.

Veruleg fækkun hefur orðið á umferðaróhöppum hjá Strætó bs. á umliðnum árum. Sérstakt forvarnaverkefni Strætó í samstarfi við VÍS á sinn þátt í þeim árangri sem náðst hefur en það hefur verið í gangi frá því í ársbyrjun 2008. Markmið þess er að fækka slysum og stuðla að auknu öryggi vegfarenda. Þótt árangurinn fram til þessa sé uppörvandi fyrir Strætó ætlum við engu að síður að gera enn betur.

Tölur frá Umferðarstofu sýna að nú fer í hönd sá árstími sem alla jafna er hvað erfiðastur í umferðinni. Vissulega má aldrei slaka á þegar kemur að umferðaröryggi, en þegar veturinn gengur í garð þurfum við að vera sérstaklega á varðbergi, sýna fyllstu aðgát og tillitssemi, því það er mikið í húfi.

Reynsla okkar hjá Strætó sýnir að vel er hægt að fækka óhöppum í umferðinni ef ráðist er í verkefnið með skipulögðum hætti. Á árinu 2006 voru tjón Strætó í umferðinni 304 talsins og fækkaði í 297 árið eftir. Árið 2008 hófst forvarnarstarfið með VÍS og árangurinn lét ekki á sér standa, því slysum fækkaði í 268.

Stóra stökkið kom svo 2009, því fjöldi tjóna hjá Strætó fór þá niður í 197 – og á síðasta ári fækkaði tjónum enn, eða í 157, sem gerir 48% fækkun á tímabilinu frá 2006 til 2010. Óhætt er að segja að það muni um minna, hvort sem litið er til slysa á fólki eða eignatjóns. Og við ætlum að gera enn betur. Það sem af er þessu ári gefur vonir um að það muni takast.

Við sem störfum hjá Strætó höfum sýnt gott fordæmi í umferðinni – og vagnstjórarnir okkar eiga heiður skilinn fyrir árangurinn síðustu ár. Ef við getum náð jafngóðum árangri og raun ber vitni þá geta aðrir það einnig. Til þess eru einmitt Öryggisdagarnir – að hvetja alla vegfarendur til að sýna aðgát, tillitssemi og ábyrga hegðun, ekki bara í nóvember, heldur alla daga ársins. Þannig næst árangur.

Við hjá Strætó ætlum að sýna gott fordæmi í umferðinni og vera vakandi akandi. Hvað með þig?




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×