Skoðun

Stórt skref til eflingar starfsnámi

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Í dag úthlutar mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkjum til fyrirtækja og stofnana sem taka nemendur í starfsþjálfun sem er hluti af starfsnámi á framhaldsskólastigi. Þetta er merkur áfangi í eflingu starfsnáms því að þetta er í fyrsta sinn sem slíkir styrkir eru veittir af almannafé. Markmiðið er að greiða fyrir því að starfsnámsnemendur geti lokið tilskilinni starfsþjálfun á vinnustað.

Samtök á vinnumarkaði hafa lengi kallað eftir því að fyrirtæki fái þóknun fyrir að annast þá kennslu eða þjálfun á vinnustað sem er skilyrði fyrir því að nemendur fái lokið starfsnámi að fullu. Styrkir til vinnustaðanáms tíðkast meðal ýmissa grannþjóða okkar. Þá var það niðurstaða tilraunar sem gerð var árið 2004 að æskilegt væri að jafna kostnað fyrirtækja við vinnustaðanám. Að lokum hefur nokkuð borið á því í efnahagsþrengingum undangenginna ára að nemendur hafi átt erfitt með að komast á námssamning og ljúka námi sínu. Með styrkjum til vinnustaðanáms eru fyrirtæki og stofnanir hvött til þess að taka við nemendum í starfsþjálfun og gera þeim kleift að ljúka námi sínu.

65 umsóknir bárust um framangreinda styrki frá fyrirtækjum og stofnunum og verður unnt að úthluta 57 milljónum króna í styrki til umsækjenda. Um 170 nemendur njóta góðs af. Í ár eru styrkirnir veittir af mennta- og menningarmálaráðuneytinu en á næsta ári verður stofnaður sérstakur vinnustaðanámssjóður til að efla vinnustaðanám og koma til móts við kostnað fyrirtækja og stofnana sem annast kennslu eða þjálfun starfsnámsnemenda. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja 450 milljónum króna til vinnustaðanáms árin 2012-2014.

Með úthlutun styrkjanna í dag er stigið stórt skref til að efla starfsnám í landinu. Ég vona að ekki einasta muni fyrirtæki í auknum mæli taka að sér nemendur í starfsþjálfun heldur sinna kennslu og þjálfun með sífellt markvissari hætti og leggja þannig sitt lóð á vogarskálarnar við að mennta þann starfskraft sem þörf er á hverju sinni.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×