Meira en að metta börn Steinunn Stefánsdóttir skrifar 22. október 2011 06:00 Uppeldi barna er verkefni sem nær til allra þátta daglegs lífs. Meðal þess sem þarf að kenna börnum er að næra sig sér til gagns. Þegar farið var að bjóða upp á mat í grunnskólum í stað þess að börnin kæmu með nesti með sér að heiman steig skólinn inn á þetta svið uppeldisins. Næring barna, sem áður var alfarið á ábyrgð heimilisins, er nú að hluta á ábyrgð skóla og þar með menntayfirvalda. Þetta er ekki lítið verkefni og ekki er dregið í efa að þeir sem við ábyrgðinni tóku hafi gert sér fulla grein fyrir mikilvægi þess. Þó virðist sem litið sé á skólamáltíðir sem einhvers konar gæluverkefni sem sneiða megi af þegar harðnar á dalnum. Því miður er það svo að aldrei er mikilvægara en einmitt þegar harðnar á dalnum að börn fái góðan og hollan mat í skólanum. Ekki eiga nefnilega öll börn kost á því heima hjá sér. Þekkt er sagan af Finnum, sem í kjölfar kreppu byggðu upp mötuneyti grunnskóla sinna til að tryggja að börnin fengju að minnsta kosti eina næringarríka máltíð á dag meðan þau væru í skólanum. Lýsingar matreiðslumanns í grunnskóla í Reykjavík í fréttum hér í blaðinu, í dag og síðastliðinn fimmtudag, á þeim aðstæðum sem matreiðslumönnum eru boðnar í skólanum eru heldur nöturlegar og svo virðist sem nánast sé ætlast til hins ómögulega af þessari stétt. Matreiðslumaður þarf að matbúa handa fimm hundruð nemendum og jafnvel fleiri og hefur einungis tvo sér til aðstoðar enda munu ekki vera til viðmið um hlutfall milli fjölda mötuneytisstarfsmanna og fjölda nemenda í fæði. „Vinnan í sumum mötuneytum er farin að líkjast meira þrælabúðum en eðlilegum vinnustað,“ segir einnig í yfirlýsingu Samtaka faglærðra matreiðslumanna í grunnskólum Reykjavíkur. Afleiðingin er sú að í auknum mæli er gripið til þess að bjóða aðkeyptan mat sem hitaður er upp í skólunum. Sú leið kann að vera eitthvað ódýrari en hin að ráða mannskap til þess að elda mat frá grunni í skólanum. Hins vegar hlýtur upphitaður matur alltaf að tapa einhverju af þeirri næringu sem hann á að veita. Mataruppeldi felst ekki bara í því að metta börn frá degi til dags. Það felst í því að venja barn við að borða hollan og næringarríkan mat sem líklegur er til að viðhalda góðri heilsu þess um alla framtíð. Það felst einnig í því að bjóða börnum þær aðstæður að matartíminn sé góð samverustund með vinum. Auk þess má benda á mikilvægi þess að börn geri sér grein fyrir tengslum milli hráefnis sem notað er í mat og þess matar sem þau neyta. Þetta uppeldi hafa skólarnir að hluta tekið að sér með því að bjóða upp á mat í grunnskólum. Hér er ekki verið að kalla eftir að börnum sé boðið einhvers konar lúxusfæði heldur einungis að aðstæður séu fyrir hendi til að útbúa handa þeim einfaldan og hollan mat. Ef það er ekki gert má velta fyrir sér hvort betur hefði verið heima setið en af stað farið í það verkefni að bjóða upp á mat í skólum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson Skoðun Embættismenn og stjórnmálamenn 30 ára Pétur Berg Matthíasson Skoðun Maður á sviði: Narsissisti í nánu sambandi Hrafnhildur Sigmarsdóttir Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir Skoðun Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis? Ólafur Ágúst Hraundal Skoðun Köld eru kvennaráð – eða hvað? Halla Hrund Logadóttir Skoðun Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir Skoðun Halldór 07.12.2024 Halldór Er hægt að kaupa aukakíóin í burtu? Elísabet Reynisdóttir Skoðun
Uppeldi barna er verkefni sem nær til allra þátta daglegs lífs. Meðal þess sem þarf að kenna börnum er að næra sig sér til gagns. Þegar farið var að bjóða upp á mat í grunnskólum í stað þess að börnin kæmu með nesti með sér að heiman steig skólinn inn á þetta svið uppeldisins. Næring barna, sem áður var alfarið á ábyrgð heimilisins, er nú að hluta á ábyrgð skóla og þar með menntayfirvalda. Þetta er ekki lítið verkefni og ekki er dregið í efa að þeir sem við ábyrgðinni tóku hafi gert sér fulla grein fyrir mikilvægi þess. Þó virðist sem litið sé á skólamáltíðir sem einhvers konar gæluverkefni sem sneiða megi af þegar harðnar á dalnum. Því miður er það svo að aldrei er mikilvægara en einmitt þegar harðnar á dalnum að börn fái góðan og hollan mat í skólanum. Ekki eiga nefnilega öll börn kost á því heima hjá sér. Þekkt er sagan af Finnum, sem í kjölfar kreppu byggðu upp mötuneyti grunnskóla sinna til að tryggja að börnin fengju að minnsta kosti eina næringarríka máltíð á dag meðan þau væru í skólanum. Lýsingar matreiðslumanns í grunnskóla í Reykjavík í fréttum hér í blaðinu, í dag og síðastliðinn fimmtudag, á þeim aðstæðum sem matreiðslumönnum eru boðnar í skólanum eru heldur nöturlegar og svo virðist sem nánast sé ætlast til hins ómögulega af þessari stétt. Matreiðslumaður þarf að matbúa handa fimm hundruð nemendum og jafnvel fleiri og hefur einungis tvo sér til aðstoðar enda munu ekki vera til viðmið um hlutfall milli fjölda mötuneytisstarfsmanna og fjölda nemenda í fæði. „Vinnan í sumum mötuneytum er farin að líkjast meira þrælabúðum en eðlilegum vinnustað,“ segir einnig í yfirlýsingu Samtaka faglærðra matreiðslumanna í grunnskólum Reykjavíkur. Afleiðingin er sú að í auknum mæli er gripið til þess að bjóða aðkeyptan mat sem hitaður er upp í skólunum. Sú leið kann að vera eitthvað ódýrari en hin að ráða mannskap til þess að elda mat frá grunni í skólanum. Hins vegar hlýtur upphitaður matur alltaf að tapa einhverju af þeirri næringu sem hann á að veita. Mataruppeldi felst ekki bara í því að metta börn frá degi til dags. Það felst í því að venja barn við að borða hollan og næringarríkan mat sem líklegur er til að viðhalda góðri heilsu þess um alla framtíð. Það felst einnig í því að bjóða börnum þær aðstæður að matartíminn sé góð samverustund með vinum. Auk þess má benda á mikilvægi þess að börn geri sér grein fyrir tengslum milli hráefnis sem notað er í mat og þess matar sem þau neyta. Þetta uppeldi hafa skólarnir að hluta tekið að sér með því að bjóða upp á mat í grunnskólum. Hér er ekki verið að kalla eftir að börnum sé boðið einhvers konar lúxusfæði heldur einungis að aðstæður séu fyrir hendi til að útbúa handa þeim einfaldan og hollan mat. Ef það er ekki gert má velta fyrir sér hvort betur hefði verið heima setið en af stað farið í það verkefni að bjóða upp á mat í skólum.