Skoðun

Að meta víðerni

Árni Páll Árnason skrifar
Kaupsamningur kínversks athafnamanns, Huangs Nobu, við hluta eigenda jarðarinnar Grímsstaða á Fjöllum hefur orðið mörgum umfjöllunarefni á undanförnum vikum. Þar vill hann skapa aðstöðu fyrir gesti til að kynnast fásinninu og hinu stórbrotna og hrjúfa landslagi sem staðurinn býður upp á.

Einn angi þessa máls hefur lítið verið ræddur. Hann er sá að með kauptilboðinu hefur myndast vísir að verði á þeim víðernum sem Ísland hefur að geyma. Hingað til hefur verð á bújörðum að mestu endurspeglað afrakstursgetu jarðanna í þágu landbúnaðar. Verð jarða á svæðum í námunda við höfuðborgina hefur þó spennst upp á undanförnum árum vegna áhuga betur stæðra einstaklinga – innlendra og erlendra – á að eiga jarðnæði sér til hugarhægðar og skemmtunar.

Verð á ósnortnum víðernum hefur hins vegar í engu breyst og er lítið sem ekkert. Fyrir vikið hefur verðmæti náttúrunnar – heiða, hrauns og sanda – verið skipulega vanmetið. Vegagerðin hefur litlar áhyggjur þurft að hafa af því að spilla ósnortnu landi undir vegstæði, því verðmæti þess hefur verið lítið þegar komið hefur til eignarnáms. Í mati á umhverfisáhrifum stórframkvæmda hefur verðmæti víðerna, útsýnis og landslagsheilda verið vanmetið, á meðan efnahagslegur ávinningur af framkvæmd í þágu orkusölu hefur verið augljós og óumdeildur. Fyrir vikið hallar alltaf á náttúruna í mati á því hvort stórframkvæmdir sem kalla á miklar fórnir ósnortinna víðerna séu réttlætanlegar.

Vilji Huangs Nobu til að kaupa gagnslítil víðerni háu verði er því sérstakt ánægjuefni fyrir þau okkar sem höfum viljað að menn tækju tillit til mikilvægis auðnanna og víðernanna við mat á arðsemi stórframkvæmda og mun, ef af samningum verður, draga úr ágengni framkvæmdaaðila gagnvart víðernum í framtíðinni. Og kannski er það eftir öðru að það þyrfti útlending til að hjálpa Íslendingum að meta til sannvirðis víðerni í náttúru Íslands.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×