Ágæt áskorun frá Evrópu Steinunn Stefánsdóttir skrifar 26. júlí 2011 07:00 Lestrarkunnátta íslenskra nemenda í fjórða bekk er undir meðaltali í Evrópusambandinu. Einnig glíma að meðaltali fleiri íslenskir nemendur við alvarleg lestrarvandamál en annars staðar í álfunni. Þetta kemur fram í skýrslu um lestrarkennslu í Evrópu sem gerð var á vegum Eurydice, upplýsinganets á vegum Evrópusambandsins um menntamál í Evrópu og birtist fyrir skömmu. Fleiri barnabækur eru þó til á heimilum íslenskra barna samkvæmt skýrslunni og íslensk börn lesa næst mest í Evrópu. Þetta eru ánægjulegar upplýsingar sem rétt er að halda á lofti og nýta í áframhaldandi vinnu. Í könnuninni kemur einnig fram að markviss þjálfun í lesskilningi er ekki talin sem skyldi hér á landi. Til dæmis báðu aðeins 40 prósent íslenskra kennara nemendur sína í fjórða bekk að skýra út hvað þeir hefðu lesið að minnsta kosti vikulega og innan við eitt prósent kennaranna bað nemendurna um að lýsa textastíl og uppbyggingu textans. Undanfarin ár hefur ítrekað verið á það bent að hér á landi sé ekki varið jafnmörgum kennslustundum til íslenskukennslu í grunnskólum og nágrannaþjóðir okkar verja til að kenna sínar þjóðtungur. Ætla má að þetta geti einmitt komið niður á lesskilningsþjálfun nemenda. Ef tími er naumur segir sig sjálft að minna rými er fyrir markvissa þjálfun í lesskilningi, hvort heldur með æfingum eða umræðu um þann texta sem lesinn er. Einnig má leiða að því líkum að hverfandi kjarni í íslensku í grunnnámi kennara hafi leitt til þess að færri kennarar séu meðvitaðir um mikilvægi þess að vinna með þann texta sem lesinn er á margbreytilegan hátt. Lestur og lesskilningur eru alger grunnþáttur, ekki bara í námi heldur í öllu lífi fólks og starfi. Í sameiginlegum inngangskafla nýrrar aðalnámskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eru skilgreindir grunnþættir í íslenskri menntun. Læsi í víðum skilningi er þar efst á blaði og slær þannig tón sem vonandi mun óma í þeim námskrám sem líta munu dagsins ljós á næstu misserum. Vitanlega ber að taka öllum samanburðarrannsóknum, eins og þeirri sem hér er vísað til, með hæfilegum fyrirvara. Margir þættir geta orðið til þess að talnagögn frá mismunandi löndum verði ekki alls kostar sambærileg þótt reynt sé að vanda til verka. Engu að síður er rétt að nýta allar svona rannsóknir í viðleitninni til að gera betur. Þegar kemur að slíkum grunnþætti í lífi og starfi fólks eins og lestur er og lesskilningur er þá er svo sannarlega alltaf ástæða til að reyna að gera betur. Og það er áreiðanlega hægt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson Skoðun Embættismenn og stjórnmálamenn 30 ára Pétur Berg Matthíasson Skoðun Maður á sviði: Narsissisti í nánu sambandi Hrafnhildur Sigmarsdóttir Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir Skoðun Köld eru kvennaráð – eða hvað? Halla Hrund Logadóttir Skoðun Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis? Ólafur Ágúst Hraundal Skoðun Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir Skoðun Halldór 07.12.2024 Halldór Er hægt að kaupa aukakíóin í burtu? Elísabet Reynisdóttir Skoðun
Lestrarkunnátta íslenskra nemenda í fjórða bekk er undir meðaltali í Evrópusambandinu. Einnig glíma að meðaltali fleiri íslenskir nemendur við alvarleg lestrarvandamál en annars staðar í álfunni. Þetta kemur fram í skýrslu um lestrarkennslu í Evrópu sem gerð var á vegum Eurydice, upplýsinganets á vegum Evrópusambandsins um menntamál í Evrópu og birtist fyrir skömmu. Fleiri barnabækur eru þó til á heimilum íslenskra barna samkvæmt skýrslunni og íslensk börn lesa næst mest í Evrópu. Þetta eru ánægjulegar upplýsingar sem rétt er að halda á lofti og nýta í áframhaldandi vinnu. Í könnuninni kemur einnig fram að markviss þjálfun í lesskilningi er ekki talin sem skyldi hér á landi. Til dæmis báðu aðeins 40 prósent íslenskra kennara nemendur sína í fjórða bekk að skýra út hvað þeir hefðu lesið að minnsta kosti vikulega og innan við eitt prósent kennaranna bað nemendurna um að lýsa textastíl og uppbyggingu textans. Undanfarin ár hefur ítrekað verið á það bent að hér á landi sé ekki varið jafnmörgum kennslustundum til íslenskukennslu í grunnskólum og nágrannaþjóðir okkar verja til að kenna sínar þjóðtungur. Ætla má að þetta geti einmitt komið niður á lesskilningsþjálfun nemenda. Ef tími er naumur segir sig sjálft að minna rými er fyrir markvissa þjálfun í lesskilningi, hvort heldur með æfingum eða umræðu um þann texta sem lesinn er. Einnig má leiða að því líkum að hverfandi kjarni í íslensku í grunnnámi kennara hafi leitt til þess að færri kennarar séu meðvitaðir um mikilvægi þess að vinna með þann texta sem lesinn er á margbreytilegan hátt. Lestur og lesskilningur eru alger grunnþáttur, ekki bara í námi heldur í öllu lífi fólks og starfi. Í sameiginlegum inngangskafla nýrrar aðalnámskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eru skilgreindir grunnþættir í íslenskri menntun. Læsi í víðum skilningi er þar efst á blaði og slær þannig tón sem vonandi mun óma í þeim námskrám sem líta munu dagsins ljós á næstu misserum. Vitanlega ber að taka öllum samanburðarrannsóknum, eins og þeirri sem hér er vísað til, með hæfilegum fyrirvara. Margir þættir geta orðið til þess að talnagögn frá mismunandi löndum verði ekki alls kostar sambærileg þótt reynt sé að vanda til verka. Engu að síður er rétt að nýta allar svona rannsóknir í viðleitninni til að gera betur. Þegar kemur að slíkum grunnþætti í lífi og starfi fólks eins og lestur er og lesskilningur er þá er svo sannarlega alltaf ástæða til að reyna að gera betur. Og það er áreiðanlega hægt.