Skoðun

Eitthvað annað getur ráðið úrslitum

Magnús Halldórsson skrifar
Um átján mánuðir eru í næstu þingkosningar. Samkvæmt nýjustu könnunum á viðhorfi fólks til stjórnmála er spennandi staða uppi, held ég að mér sé óhætt að segja.

Eftirfarandi er líkleg niðurstaða í kosningunum, ef mið er tekið af könnunum:

Sjálfstæðisflokkur: Hann fær 30 til 40% fylgi. Þrátt fyrir að tekist sé á bak við tjöldin í flokknum þá hefur Bjarna Benediktssyni formanni tekist að auka fylgið töluvert frá síðustu kosningum. Það er hans stærsta vopn fyrir landsfundinn framundan. Fái Bjarni góða kosningu á fundinum er ólíklegt að fylgið falli frekar frá því sem nú er, að mínum dómi. Ástæðan er sú að flokksstarfið er traust í flokknum og fastafylgið stór hluti af heildinni. Mikill klofningur að loknum landsfundi gæti leitt til straums úr flokknum í nýtt framboð, þó það virðist fremur ólíklegt eins og mál standa nú.

Framsóknarflokkur: Hann fær 13 til 20% fylgi. Nokkur óvissa er hér í spilunum. Stóra spurningin er hvernig Framsóknarflokknum tekst að brúa bilið við óánægjufylgið sem er utan veltu, þar sem nýtt framboð gæti reynt að ná til fólks. Sameiginleg stefnumál flokksins og Hagsmunasamtaka heimilanna gætu hjálpað til. Áfram er helsti vandinn veik staða á höfuðborgarsvæðinu. Formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þarf á öllum sínum vopnum að halda til þess að styrkja stöðuna þar. Það mun skipta sköpum.

Samfylkingin: Hún fær 15 til 25% fylgi. Samfylkingin stendur og fellur með ESB málinu virðist vera. Það er í senn styrkur og veikleiki. Landsfundurinn sem fram fór fram um helgina var ekki kröftugur, í það minnsta ekki út á við. En samstaða ríkir meðal flokksmanna um að halda áfram samkvæmt planinu sem stjórnvöld vinna eftir. Það hefur ekki verið til vinsælda fallið hingað til og verður það líklega ekki fram að kosningum. Flokkurinn getur ekki ætlast til þess að fá meira en 25% fylgi ef skýr afstaða um ESB-aðild er hans eina aðdráttarafl. Það þarf meira til. Það er líka raunveruleg hætta á því að flokkurinn missi mikinn hluta af fylgi til nýs framboðs. Gerist það, getur hann farið í lægstu lægðir, eða í kringum 15%.

Vinstrihreyfingin grænt framboð: Hún fær 10 til 15% fylgi. Það sem helst getur hjálpað VG er það, ef Steingrími J. Sigfússyni formanni, tekst að halda vel á málum í ríkisfjármálunum, þannig að óumdeildur árangur, sem erfitt verður að andmæla, hafi náðst þegar kemur að kosningum. Vandi flokksins er hins vegar helst lítið fastafylgi. Nýtt framboð getur augljóslega sett strik í reikninginn hjá VG, í raun farið langt með að gera hann léttvægan í stjórnmálalitrófinu.

Síðan er það nýtt framboð, „eitthvað annað" en það sem fyrir er. Hreyfingin og Borgarahreyfingin ættu að geta rúmast þar innan ef rétt er haldið á spilunum, en það skiptir samt ekki sköpum held ég. Samkvæmt könnunum getur nýtt framboð haft afgerandi áhrif á landslag stjórnmálanna, og jafnvel komist í þá stöðu að geta gert kröfu um stól forsætisráðherra og ráðið því hvort næsta ríkisstjórn verður vinstri, hægri eða miðjustjórn. Þetta hljómar ótrúlega en er raunhæft miðað við kannanir. Líklegt fylgi er 15 til 30%. Allt eftir því hvernig haldið verður á spilunum.

Erfiðasta verkefni nýs framboðs verður að ná til óánægjufylgisins með fáum en vel völdum stefnumálum, eins og Guðmundur Steingrímsson þingmaður lýsir ágætlega í viðtalsþættinum Klinkinu hér á viðskiptavef Vísis.is. Það er ekki víst að hann sé sá sem muni leiða þetta nýja framboð, það er ómögulegt um það að segja.

ESB-afstaðan er ekki aðalmálið held ég, þegar til kastanna kemur, þó afstaðan til þess skipti vissulega máli. Frekar er það öfgalítil stefna, eins og að hætta pólitískum ráðningum á óhæfu fólki, kalla til sérfræðikunnáttu þegar það á við fremur en flokkspólitískt fólk, osvfrv. Sem sagt; leysa málin með heilbrigðri skynsemi en ekki flokksböndum, ef svo mætti kalla. Afleggja spillingu, svo stór orð séu notuð. Það má ekki gleyma því að atkvæðagreiðsla um aðild að ESB verður lokið fyrir næstu kosningar nái vilji stjórnvalda fram að ganga. Því gæti það verið leikur að eldinum hjá nýju framboði veðja á ESB sem helsta mál í aðdraganda kosninga. Málið gæti einfaldlega verið dautt þegar til kastanna kemur.

En það breytir ekki stóru myndinni, sem er þessi:

„Eitthvað annað" en það sem fyrir er getur ráðið úrslitum. Byrinn í seglin er ekki síst sá að flokkarnir sem fyrir eru virðast stórlega vanmeta stöðuna og hversu margir eru tilbúnir að kjósa nýtt trúverðugt framboð. Því til staðfestingar má nefna framboð Besta flokksins og L-listans á Akureyri í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Þau sitja nú við stýrið í sveitarfélögum sem sameiginlega eru með yfir 50% af kjósendum. Það eitt ætti að hræða „fjórflokkinn" í það minnsta ofurlítið.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×