Skoðun

Foreldrar í skólabyrjun

Haustin eru heillandi tími. Skólarnir eru að hefja störf að nýju eftir sólríkt sumar. Eftirvænting ríkir meðal skólabarnanna - augnagotur og umhugsun um hvað veturinn muni bera í skauti sér. Það er ekki laust við að foreldrarnir fái líka fiðring í magann, kannski af gömlum vana.

Öll viljum við að börnum okkar líði vel í skólanum og námsárangur þeirra sé góður. Rannsóknir sýna að þátttaka foreldra í skólastarfi er áhrifamesti þátturinn þegar kemur að líðan og árangri nemenda.

En hvernig tökum við þátt? Sumum foreldrum finnst námsefnið framandi og treysta sér ekki til að aðstoða barnið við heimanám. Það hefur sýnt sig að það er ekki endilega heimanámið sem slíkt sem hefur mest áhrif á námsárangur heldur áhugi foreldra á námsefninu. Mikilvægt er að vera með jákvæðar væntingar og viðhorf til skólastarfsins. Ef við sýnum námi barnsins áhuga og spjöllum um það erum við á réttri leið. Foreldrar eiga ekki að hika við að hafa samband við umsjónarkennara barns síns ef þeim finnst eitthvað óljóst.

Þátttaka í félagsstarfi barnanna er ekki síður mikilvæg. Með því að taka þátt í viðburðum á vegum skólans, foreldrafélags eða bekkjar styrkjum við tengslin við skólann, skólafélaga barnanna okkar og aðra foreldra. Að vera bekkjarfulltrúi eða að taka sæti í stjórn foreldrafélags er skemmtileg upplifun og frábært tækifæri til að kynnast umhverfi barnanna enn betur. Með því að taka þátt í skólastarfi eru foreldrar ekki einungis að fá aukna innsýn í skólastarfið heldur einnig að hafa bein jákvæð áhrif á sín eigin börn.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×