Skoðun

Réttar­ó­vissa vegna er­lendra lána

Eygló Harðardóttir skrifar

Eygló Harðardóttir skrifar um erlend lán.

Hinn 12. febrúar síðastliðinn féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem ákvæði lánasamningsins um gengistryggingu voru dæmd ólögmæt þar sem lánið hafi verið veitt í íslenskum krónum. Áður hafði fallið annar dómur við sama dómstól þar sem komist var að gagnstæðri niðurstöðu í mjög svipuðu máli.

Því er ljóst að fullkomin réttar­óvissa ríkir um þetta álitaefni og úr henni verður ekki skorið nema fyrir Hæstarétti. Að öllu óbreyttu verður málið ekki tekið fyrir þar fyrr en í fyrsta lagi undir næstu áramót.

Hvað er erlent lán?

Hagsmunasamtök heimilanna, talsmaður neytenda og fleiri hafa ítrekað bent á hugsanlegt ólögmæti erlendra lána, sérstaklega ákvæði laga um vexti og verðtryggingu þar sem blátt bann er lagt við að skuldbindingar í íslenskum krónum séu bundnar dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Einnig hefur verið bent á að hugsanlega sé ekki hægt að skilgreina lánasamninga á milli tveggja innlendra aðila sem erlent lán. Þannig fari eftir búsetu útgefanda hvort verðbréf séu flokkuð sem innlend eða erlend en ekki myntinni sem verðbréfið er gefið út í. Þannig ræður mynt lánsins engu um hvort lánið sé innlent eða erlent, heldur aðeins búseta útgefandans.

Í grein eftir Gunnlaug Kristinsson, löggiltan endurskoðanda, segir: „Nánast undantekningalaust hefur veiting lána í erlendri mynt eða lána með gengistryggingu, til almennings og fyrirtækja á Íslandi, verið veitt til viðskipta þar sem undirliggjandi verðmæti eru í íslenskum krónum og greiðsla til lántaka verið í íslenskum krónum þrátt fyrir hin gengistryggðu ákvæði eða hreinlega erlend lánsfjárhæð tilgreind í texta skuldabréfsins… Skuldbinding milli tveggja innlendra aðila er því alltaf í íslenskum krónum, ef útgreiðsla lánsins var í íslenskum krónum og lánveitandinn er innlendur aðili, hvernig sem á málið er litið enda er íslenska krónan eini lögmæti gjaldmiðill landsins."

Með þessum rökum eru lán milli innlendra aðila alltaf í íslenskum krónum, hvernig sem lánasamningarnir eru orðaðir, ef enginn erlendur gjaldmiðill skiptir raunverulega um hendur.

Miklir hagsmunir

Af þessu er ljóst að gífurlegir hagsmunir eru af því að fá úr því skorið sem allra fyrst hvort gengistryggðir lána- og kaupleigusamningar eru löglegir eða ekki.

Viðskiptaráðherra upplýsti í svari við fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar í júlí í fyrra, að yfir 40.000 einstaklingar eru með fjármögnun bifreiðar í erlendri mynt að upphæð yfir 115 milljarða króna. Þá upplýsti félags- og tryggingamálaráðherra í svari við fyrirspurn Helgu Sigrúnar Harðardóttur að gengisbundin skuldabréf til heimila voru um 315 milljarðar króna í lok september 2008 og voru 107 milljarðar skilgreindir sem erlend íbúðalán. Þá eru ónefndir sambærilegir lánasamningar fyrirtækja.

Þótt ýmsir hafi lagt áherslu á mikilvægi þess að flýta meðferð þessara mála, liggur fyrir að dómstólar taka ekki við slíkum fyrirmælum frá ráðherrum eða öðrum. Því má telja einsýnt að dómstólar telji sér óheimilt að flýta málum þar sem reynir á lögmæti innlendra lána- og kaupleigusamninga í erlendri mynt. Einnig hafa lögfræðingar og nú síðast efnahags- og viðskiptaráðherra bent á að gengistryggðir lánasamningar eru ekki allir af sama toga og þar með ekki sjálfgefið að niðurstaða Hæstaréttar í ofangreindu máli hafi almennt fordæmisgildi.Enginn vilji hefur verið hjá ríkisstjórninni að taka á gengistryggðum lánum á heildstæðan máta, þrátt fyrir að talsmaður neytenda hafi lagt fram tillögur á sínum tíma um gerðardóm til að leita ásættanlegrar lausnar fyrir bæði lánveitendur og lántakendur.

Á sama tíma og ráðherrar varpa frá sér allri ábyrgð og segja beinlínis að hver og einn þurfi að stefna bönkum og eignaleigufyrirtækjum hafa þeir markvisst unnið að því að draga úr möguleikum almennings til að gera einmitt það. Stjórnvöld hafa hækkað kostnað við málsóknir og ekkert gert til að auka möguleika fólks til gjafsóknar.

Tryggjum réttláta meðferð

Ég hef því ákveðið að leggja fram frumvarp til laga á Alþingi þar sem heimilt verður að óska eftir flýtimeðferð fyrir héraðsdómi og Hæstarétti ef viðkomandi hyggst höfða mál vegna lögmætis lána- og kaupleigusamninga sem eru gengistryggðir. Jafnframt verði nauðungarsölum vegna samskonar lánasamninga frestað þar til niðurstaða liggur fyrir hjá Hæstarétti um lögmæti þeirra.

Vonast ég eftir að sem flestir þingmenn gerist meðflutningsmenn með mér í þessu máli, svo hægt verið að aflétta sem fyrst réttaróvissu, takmarka hugsanlega skaðabótaábyrgð málsaðila og tryggja hraða og réttláta meðferð þessara mála í dómskerfinu.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×