Skoðun

Er botninn heppilegur áfangastaður?

Fjármálaráðherra hefur birt fjölda blaðagreina til að gleðja okkur landsmenn og freista þess að sannfæra okkur um mikinn árangur af störfum núverandi ríkisstjórnar.

Ástæða er til að gleðjast með ráðherranum yfir því sem jákvætt er eins og þeirri staðreynd að vextir hafa lækkað verulega, krónan hefur styrkst og hafnar eru viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um aðild Íslands.

Nefnt er að atvinnuleysið er ekki eins mikið og svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. Það gleður ekki nægilega. Á meðan meira en 13 þúsund manns eru án atvinnu yfir hábjargræðistímann að sumri er ekki ástæða til að gleðjast. Þá má ekki gleyma þeim þúsundum sem hafa horfið af vinnumarkaði og flutt úr landi.

Þar er bæði átt við Íslendinga sem hafa haldið til nágrannalandanna í atvinnuleit og einnig hefur brotthvarf útlendinga verið umtalsvert.

Þá má ekki gleyma því að við þurfum að skapa um tvö þúsund ný störf hér á landi á ári næstu tíu árin og það gerist ekki af sjálfu sér. Því er grátlegt að horfa upp á ítrekaðar tafir og seinkanir vegna stórra fjárfestinga sem skapað gætu þúsundir starfa.

Þá hafa ráðamenn fagnað því sérstaklega „að botninum sé náð“. Vissulega eru Íslendingar nú á botninum. En er það eftirsóknarvert? Er líklegt að við séum eitthvað á leið af botninum með núverandi atvinnustefnu, skattastefnu og fjárfestingarstefnu stjórnvalda? Svarið við því er nei.

Því verður ekki trúað að botninn sé talinn áhugaverður áfangastaður til langframa.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×