Skoðun

Áfram frítt í strætó?

Hildur Björnsdóttir skrifar um strætó

Undanfarin ár hafa námsmönnum staðið til boða gjaldfrjálsar strætóferðir á höfuðborgarsvæðinu. Þjónustan hefur mælst vel fyrir meðal námsmanna og gefið góða raun í borginni. Nú hins vegar hyggjast strætóyfirvöld leggja niður gjaldfrjáls strætókort vegna fjárhagsörðugleika sem alls staðar láta að sér kveða í íslensku samfélagi. Stúdentaráð Háskóla Íslands harmar þau áform og óskar þess að námsmönnum verði áfram boðnar gjaldfrjálsar strætóferðir næsta skólaár.

Langtímamarkmið gjaldfrjálsra strætókorta er aukin áhersla á notkun almenningssamgangna meðal ungs fólks, minni umferð einkabíla í borginni, bætt umhverfisvernd og aukinn sparnaður fyrir stúdenta og samfélagið í heild.

Með gjaldfrjálsum strætókortum má kalla fram nauðsynlega viðhorfsbreytingu meðal borgarbúa, auka notkun strætisvagna og stuðla þannig að sparnaði hvað varðar gatnaviðgerðir, umferðarmannvirki og annað gatnaviðhald.

Áður en öllum framangreindum markmiðum verður náð þarf þó einnig að taka leiðakerfi og þjónustu Strætó bs. til gagngerrar endurskoðunar svo strætisvagnar verði loks að ákjósanlegum fararkosti fyrir borgarbúa. Undirrituð kallar eftir því að ríkið styðji við erfiðan rekstur Strætó bs. með niðurfellingu opinberra gjalda og stuðli að bættum samgöngukostum í höfuðborginni. Styðja þarf sveitarfélögin í landinu við niðurgreiðslu strætókorta og tryggja að almenningssamgöngur verði að fýsilegum kosti fyrir námsmenn og allan almenning. Ólíkt því sem tíðkaðist síðasta skólaár eru stjórnvöld einnig hvött til að gæta jafnræðis og sjá til þess að allir námsmenn fái áfram frítt í strætó - óháð lögheimili eða þjóðaruppruna. Íslenski valdasprotinn er nú í höndum ríkisstjórnar sem í stjórnarsáttmála sínum leggur áherslu á græn gildi og stórefldar almenningssamgöngur.

Nú þurfa menn að líta til framtíðar og taka ákvarðanir til hagsbóta fyrir samfélagið í heild - Íslendingar þurfa að ákveða hvers kyns höfuðborg þeir kjósa að byggja. Undirrituð hvetur því ríkisstjórnina til að standa við fögru orðin, stuðla að eflingu íslenskra almenningssamgangna og tryggja að námsmönnum verði áfram boðnar gjaldfrjálsar strætóferðir næsta skólaár.

Höfundur er formaður SHÍ.






Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×