Skoðun

Skattastefnan og jöfnuður

Björgvin Guðmundsson skrifar um skattamál.

Atvinnurekendur ráku upp mikið ramakvein vegna hugmynda ríkisstjórnarinnar um að leggja á orku- og auðlindaskatt. Upphaflega var gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu, að slíkur skattur gæti gefið 16 milljarða í ríkissjóð en ekki var að finna í frumvarpinu neina útfærslu á slíkum skatti.

Síðar var horfið frá svo háum skatti og ákveðið að hafa hann mikið lægri. Sérstaklega var kvartað mikið vegna nýja skattsins af hálfu álfyrirtækjanna eða talsmanna þeirra. Hugmyndin er sú, að skatturinn verði lagður á orkusölu til þeirra. Ekki var rætt um það háan skatt, að hann myndi íþyngja álfyrirtækjunum um of. Umhverfið hér hefur verið þessum fyrirtækjum mjög hagstætt að undanförnu m.a. vegna lágs orkuverðs og mikils gengisfalls krónunnar. Þau hafa hagnast mikið á hagstæðu gengi.

Meira réttlæti í skattamálumRíkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna er ákveðin í því að koma á meira réttlæti í skattamálum, leggja hærri skatta en áður á hátekjumenn og fyrirtæki en lægri skatta en áður á lágtekjufólk. Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknar höfðu þveröfuga stefnu í skattamálum. Þær léttu sköttum af hátekjufólki og atvinnurekendum en þyngdu skatta á lágtekjufólki. Þessi stefna jók ójöfnuð í landinu og var mjög óréttlát. Kominn er tími til að leiðrétta hana. Álagning orku- og auðlindaskatts er liður í því svo og að hækka verulega fjármagnstekjuskatt. Hann var 10%, sennilega sá lægsti á byggðu bóli. Margir fjármagnseigendur hafa ekki greitt neinn tekjuskatt eða útsvar heldur aðeins 10% fjármagnstekjuskatt á sama tíma og launafólk hefur greitt 37% skatt. Ríkisstjórnin hyggst minnka þetta bil og fara með fjármagnstekjuskatt hærra. Það er rétt skref. Jafnframt hyggst ríkisstjórnin setja frítekjumark fyrir ákveðnar sparifjárupphæðir, sem fólk á í banka, svo það þurfi ekki að greiða fjármagnstekjuskatt af tiltölulega lágum sparifjárupphæðum.

Hækka verður skattleysismörkin meiraSamkvæmt fjárlagafrumvarpinu verða skattar hækkaðir mikið, bæði beinir og óbeinir skattar. Það er óhjákvæmilegt vegna mikils halla á ríkissjóði. Það þarf að minnka hallann verulega. Fjármálaráðherra segir að skattar í heild verði svipaðir sem hlutfall af landsframleiðslu og þeir voru fyrir nokkrum árum. Ég fagna því, að ríkisstjórnin ætli að leggja skattana þannig á einstaklinga að þeir komi léttar niður á lágtekjufólki og þyngra á hátekjufólki. En fréttir um að ekki verði staðið við hækkun skattleysismarka eins og lofað hafði verið eru ekki í samræmi við fyrri stefnu ríkisstjórnarinnar. Þau verða þó hækkuð nokkuð. Skattleysismörkin verða að hækka meira. Það er besta leiðin til þess að bæta kjör láglaunafólks og eldri borgara. Verkalýðshreyfingin hefur þegar mótmælt því að ríkisstjórnin sé að falla frá ráðgerðri hækkun skattleysismarka og krefst þess að staðið verði við það fyrirheit. Það var ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem ákvað að skattleysismörkin skyldu hækkuð í áföngum á nokkrum árum og það var síðan ítrekað í stöðugleikasáttmálanum. Núverandi ríkisstjórn er aðili að sáttmálanum. Hún verður að standa við hann. Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks áttu skattleysismörk að hækka um 20 þús. (á mánuði) árlega í 3 ár. Skattleysismörkin áttu í ár að hækka um 20 þús. á mánuði.

Sköttum dreift réttlátlegaStefnan í skattamálum segir mikið til um það hvert stjórnvöld vilja stefna. Núverandi ríkisstjórn Samfylkingar og VG vill kenna sig við félagshyggju og velferðarkerfi. Stefnan í skattamálum segir mikið til um það hvort ríkisstjórnin stendur undir nafni. Það er eðlilegt að félagshyggjustjórn noti skattastefnuna til þess að jafna tekjur í þjóðfélaginu. Og það er hún nú að reyna að gera með því að hækka skatta á fyrirtækjum, fjármagnseigendum og háum tekjum og létta skatta láglaunafólks. Það er tími til kominn eftir að láglaunafólk hefur árum saman verið skattpínt af ríkisstjórnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Ég skora á ríkisstjórnina að halda fast við þessa stefnu þrátt fyrir hávær mótmæli samtaka atvinnurekenda og fulltrúa álverksmiðja.

Samkvæmt skýrslu,sem OECD birti um skattamál á Íslandi í fyrra hækkuðu skattar hér á tímabilinu 1990-2006 úr 38% af landsframleiðslu í 48%. Á sama tíma hækkuðu skattar á lágtekjufólki um 15 prósentustig. Þessi skýrsla talar sínu máli um áhrif íhalds og framsóknar á skattamálin hér á landi.

Höfundur er viðskiptafræðingur.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×