Skoðun

Brottreknir ræstitæknar í Valhöll?

Ögmundur Jónasson skrifar
Vefsíða Landspítalans auglýsir fundi fyrir starfsmenn Landspítalans með heilbrigðisráðherra. Ekkert nema gott um það að segja að heilbrigðisráðherra vilji sitja fyrir svörum hjá starfsfólki í heilbrigðiskerfinu og eðlilegt að Landspítalinn auglýsi þetta framtak ráðherrans.

Það sem hins vegar er óvenjulegt við þetta fundarboð á vef Landspítalans er að fundarstaðurinn skuli vera Valhöll, félagsheimili Sjálfstæðisflokksins þar sem vertinn er Landsmálafélagið Vörður.

Tilefni fundahalda Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, er ærið. Víða þarf hann að verja eigin gjörðir. Þannig hefur hann dregið úr framlagi til Landspítalans á fjárlögum að raungildi. Ítrekað hefur heilbrigðisráðherra sagt fullyrðingar í þessa veru ósannindi og horfir þá í krónufjöldann sem til sjúkrahússins rennur. Þá vill hann gleyma að hafa hliðsjón af umfangi þeirra verka sem sjúkrahúsinu er ætlað að sinna.

Ríkisendurskoðun hefur sýnt fram á að jafnt og þétt hafi verið þrengt að sjúkrahúsinu á undanförnum árum. Aldrei hefur ástandið verið eins slæmt og nú. Sveltistefnan er síðan notuð til að einkavæða starfsemi LSH í bútum. Ýmsir verkþættir eru þegar komnir til verktaka og minnast margir eflaust þeirra deilna sem risu í vetur þegar hafist var handa um að bjóða út störf læknaritara.

Ræstitæknarnir eru flestir komnir til verktakafyrirtækisins ISS. Þar eru kjörin rýrari en þau voru þegar þetta starfsfólk starfaði milliliðalaust hjá sjúkrahúsinu, enda leikurinn til þess gerður að spara á kostnað starfsfólksins. Um mánaðamótin var ræstitæknum á Barna- og unglingageðdeildinni sagt upp störfum. Skyldu þeir hafa mætt í Valhöll til að heyra heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins útskýra hve þjóðhagslega hagkvæmar uppsagnirnar væru?

Höfundur er alþingismaður og formaður BSRB.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×