Skoðun

Mannréttindabrot kvótakerfisins

Björgvin Guðmundsson skrifar
Sjávarútvegsráðherra hefur lofað Mannréttindanefnd SÞ því að kvótakerfið verði endurskoðað. Ekkert er þó farið að gera enn varðandi endurskoðun kerfisins.

Sjómaður, Ásmundur Jóhannsson frá Sandgerði, réri kvótalaus til þess að mótmæla ranglæti kerfisins. Hann verður sjálfsagt ákærður. Hann segist munu kæra niðurstöðu dómsins til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Búist er við að margir fylgi fordæmi sjómannsins frá Sandgerði og rói kvótalausir. Er búist við að hreyfing muni myndast og landsmenn rísi upp gegn hinu rangláta kerfi. Ég fagna því ef svo verður. Kvótakerfið var sett á með ranglátum hætti og framkvæmt á ósanngjarnan hátt samkvæmt úrskurði Mannréttindanefndar SÞ.

Kvótakerfið er mesta ranglæti Íslandssögunnar. Það er verið að úthluta tiltölulega fáum útvöldum fríum gæðum,sem þeir geta braskað með og selt fyrir milljarða króna. Margir hafa gengið út úr greininni með fullar hendur fjár enda þótt þeir hafi fengið gæðin frítt. Þetta eru mannréttindabrot. Það eiga allir þegnar að sitja við sama borð og það jafnrétti er stjórnarskrárvarið. Ég tel að þessi mismunun sé brot á stjórnarskránni.

Í þingkosningunum 2003 lagði Samfylkingin höfuðáherslu á kvótakerfið og nauðsynlegar breytingar á því. Flokkurinn setti þá fram tillögur um svonefnda fyrningarleið. Æ fleiri hafa séð, að það er skynsamleg leið. Samfylkingin náði ágætum árangri í kosningunum 2003 en þó var sagt, að gagnrýnin á kvótakerfið hafi ekki fengið nægilegan hljómgrunn. Ég er ósammála því.

Í kosningunum 2007 minntist Samfylkingin varla á kvótakerfið. Flokkurinn ýtti málinu út af borðinu til þess að greiða fyrir ríkisstjórn með íhaldinu. Þetta var forkastanlegt. Það var búið að boða félagshyggjustjórn en síðan fengu landsmenn ríkisstjórn með íhaldinu áfram. Samfylkingin kom inn í stað Framsóknar. Þetta voru mikil vonbrigði. En það hefði mátt réttlæta það ef Samfylkingin fengi einhver mikilvæg stefnumál í framkvæmd. Það hefur ekki orðið enn en vonandi verður svo. Það var hvergi samþykkt í Samfylkingunni að ýta kvótamálinu út af borðinu. Ákvörðun um það virðist hafa verið tekin af forustu flokksins. Ég er mjög óánægður með það og mótmæli því hér með sem félagi í Samfylkingunni og frambjóðandi í síðustu kosningum.

Ég vænti þess samt að Samfylkingin sjái til þess að gerðar verði róttækar breytingar á kvótakerfinu í samræmi við óskir Mannréttindanefndar SÞ. Það verður að breyta kerfinu þannig að hætt verði að brjóta mannréttindi.Það er lágmarks breyting.

- Höfundur er viðskiptafræðingur.








Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×