Skoðun

Taugaveiklun í utanríkisráðuneytinu

Steingrímur J. Sigfússon skrifar
Spjall mitt við Heimi Má Pétursson í Hádegisviðtali á Stöð 2 mánudaginn 5. maí hefur greinilega valdið umtalsverðum taugatitringi í utanríkisráðuneytinu. Í Fréttablaðinu 10. maí ryðst aðstoðarmaður utanríkisráðherra fram á ritvöllinn og beitir harla óvenjulegum aðferðum í pólitískri rökræðu, ef hægt er þá að gefa skrifum hennar slíkt nafn.

Í grein Kristrúnar Heimisdóttur er minn málflutningur ekki afgreiddur þannig að ég hafi haldið þar fram illa rökstuddum eða fráleitum sjónarmiðum, ég hafi rangt fyrir mér eða að ég hafi misskilið eitt eða annað. Nei, þess í stað er ósköp einfaldlega sagt að ég hafi logið 5 sinnum á jafn mörgum mínútum, sbr. fyrirsögn greinarinnar „5 sinnum ósatt á 5 mínútum". Minna má nú gagn gera. Þegar betur er að gáð er þó engin efnisleg staðreynd eða fullyrðing mín hrakin til að undirbyggja og sanna þessa sveru fullyrðingu. Ég stend við hvert orð sem ég þarna sagði og renn skammt undan með mínar skoðanir þó svona skeyti berist úr herbúðum Samfylkingarinnar.

Við höfum bersýnilega ólík viðhorf til utanríkis-, friðar- og afvopnunarmála, ég, utanríkisráðherra og aðstoðarmanneskja hennar. Það sem veldur þessari hrottalegu taugaveiklun í utanríkisráðuneytinu er að ég er ósammála þeirri miklu áherslu á þátttöku í NATO og stórfelldum útgjöldum til hernaðartengdra verkefna sem utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, beitir sér fyrir. Þeirri stefnu hef ég gefið nafnið „NATO-væðing".

Útgjöld upp á milljarða króna í þarflaust vígbúnaðarbrölt er greinilega hafið yfir gagnrýni að mati Samfylkingarforustunnar.

Ég hirði ekki að eiga orðastað við flokkspólitísku deildina í utanríkisráðuneytinu, eins og hún sé handhafi hins eina og endanlega sannleika. Ef umræðan á að vera á þeim forsendum að allir sem ekki eru sammála núverandi utanríkisráðherra og aðstoðarmanneskju hennar segi barasta ósatt, séu að ljúga, þá er málstaður þeirra ekki beysinn og þær ekki öfundsverðar af honum.

Höfundur er formaður Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×