Skoðun

Er Framsókn korktappinn í hafinu?

Árni Páll Árnason skrifar
Það fer ekki hjá því að maður velti fyrir sér hvort hægt sé að segja hvað sem er í stjórnmálaumræðunni, án þess að það hafi nokkra þýðingu. Í ræðu Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, á föstudag sagði hann stjórnarandstöðuna ætla að efna til eyðsluveislu á kostnað almennings og hún stefndi að því að rústa ríkissjóð á mettíma.

Engin rök voru færð fram fyrir þessari fullyrðingu. Það er Framsóknarflokkurinn sem lofar nú milljónatugum og hundruðum á báðar hendur, ekki Samfylkingin. Jón Sigurðsson er of merkilegur maður til að færa stjórnmálaumræðuna niður á þetta plan.

Mesta athygli vekur samt falsettudúett Sivjar Friðleifsdóttur og Jóns. Siv setti fram hótun í garð samstarfsflokksins um stjórnarslit ef ekki yrði sett ákvæði um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá.

Jón hefur síðan verið óþreytandi að halda því fram að Siv hafi sagt eitthvað allt annað en hún sagði. Siv sagði að „ef að við náum ekki að klára það, að þá geti það haft áhrif á þetta ágæta stjórnarsamstarf, að það geti trosnað verulega þannig að við ef til vill sjáum hér þá einhvers konar minni hlutastjórn eða starfsstjórn fram að kosningum“. Þessi orð eru hótun um stjórnarslit en ekki lýsing á alvöru málsins eða áhyggjum af málinu eða lýsing á einurð framsóknarmanna, eins og Jón Sigurðsson sagði í Silfri Egils á sunnudag.

Það er Framsóknarflokknum til minnkunar að spila út stórum yfirlýsingum og vera svo kominn á harðahlaup frá þeim hálfum sólarhring seinna. Þetta flokksþing bendir til að nú eigi að vinna kosningar út á lýðskrum og yfirboð. Skyndilega á að snúa til baka með framkvæmd þjóðlendulaga, þótt flokkurinn hafi haft til þess öll tækifæri árum saman. Síðan er daðrað við afnám verðtryggingar, sem allir vita að verður ekki hrint í framkvæmd á meðan við notumst við krónuna.

Einu sinni vann Framsókn kosningar út á að vera kletturinn í hafinu, táknmynd stöðugleika, raunsæis og yfirvegunar. Þetta flokksþing bendir til að Framsókn ætli sér það hlutskipti að verða korktappinn í hafinu.

Höfundur er lögfræðingur og skipar 4. sætið á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Þessi orð eru hótun um stjórnarslit en ekki lýsing á alvöru málsins eða áhyggjum af málinu eða lýsing á einurð framsóknarmanna, eins og Jón Sigurðsson sagði í Silfri Egils á sunnudag.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×