Skoðun

Er hægt að kaupa þitt atkvæði?

 

Mér blöskrar svo sú umræða sem á sér oft stað í kringum kosningar í sambandi við ungmenni. Það þarf að ná til þeirra sem eru á þeim aldri þar sem að skipulagsmál og fjölskyldustefna skipta ekki heimsins mesta máli. Hvað er hægt að gera til að ná til þessa aldurshóps? Jú bjóðum upp á bjór og pizzu - ef það virkar ekki þá virkar ekki neitt!

Því miður er þetta viðkvæðið hjá mörgu ráðafólki flokkanna.

Þau lofa öllu fögru í sambandi við fíkniefnamál og öryggisgæslu í miðbænum á daginn en skipta svo um gír þegar nær dregur kvöldi og gefa frían bjór gegn því að ungmenni skrifi nafn sitt á lista. Nokkurs konar súperman syndrome; jakkafatatípan á daginn en töff og kúl típan á kvöldin. Erum við unga fólkið virkilega svona vitlaus? Virkar ekkert annað á okkur en áfengi og auglýsingaherferðir með fyndum myndum?

Það er mjög auðvelt að hella ungling fullann og sannfæra hann svo um ágæti X flokksins.

Stefnum við virkilega ekki hærra en það?

Erum við svo reiðubúin að kaupa hvert atkvæði að verðið skipti ekki máli?

Ég veit ekki með ykkur en mér leiðist svona tvískinnungur. Ég ætla að gefa mér það að við unga fólkið séum vitrari en svo að það sé aðeins hægt að ná til okkar í gegnum þokuna sem áfengið myndar. Ég vil frekar að fólk kjósi mig og mín störf vegna þess að það metur það sem ég er að segja og/eða gera. Ekki bara vegna þess að ég er skemmtilegri en foreldrar þeirra því ég segi ekki nei í gríð og erg. Ég ætla ekki að taka þátt í því að reka naglann, þó ekki sé nema örlítið, í kistu þessa unga fólks. Það er víst nógu erfitt fyrir þau að segja nei við seljendur götunnar þó svo að við séum ekki að hella ofan í þau í leiðinni.

Höfundur skipar 5. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akureyri til bæjarstjórnarkosninga 2006.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×