Skoðun

Rangfærslur útvarpsstjóra

Erna Kettler skrifar
Einkaréttarsamningar við stærstu framleiðendur sjónvarpsefnis í Hollywood eru orðnir að veruleika á Íslandi. Áður en Skjár 1 leit dagsins ljós greiddi ÍÚ (nú 365 miðlar) að jafnaði sama verð fyrir afþreyingarefni frá Hollywood og RÚV hafði verið að greiða. Með tilkomu Skjás 1 hækkaði verð svo til á einni nóttu um 50-100 prósent. Þá var ekki aftur snúið; samkeppnin var hafin fyrir alvöru.

Árið 2005 gerðu 365 miðlar, sem reka Stöð 2, Sirkus og Sýn, einkaréttarsamninga við Twentieth Century Fox og Warner Brothers. Þetta þýddi að 365 skuldbatt sig til að kaupa allt það sjónvarpsefni sem þessi tvö fyrirtæki framleiða næstu árin. Skjár 1 og RUV geta því ekki boðið í sjónvarpsefni frá þessum tveimur fyrirtækjum á meðan samningurinn er í gildi.

Í lok árs 2005 gerði RÚV samskonar einkaréttarsamning við Disney-samsteypuna um kaup á sjónvarpsefni sem þeir framleiða næstu árin. Þetta gerir það að verkum að hvorki Skjár 1 né 365 miðlar geta boðið í efni frá Disney.

Einkaréttur RÚV á afþreyingarefni frá HollywoodÍ ljósi þessarar staðreyndar skaut það ansi skökku við þegar Páll Magnússon útvarpsstjóri þvertók fyrir það að RÚV stundaði slík viðskipti, er hann mætti Ara Edwald, forstjóra 365, í morgunþættinum Íslandi í bítið síðastliðinn mánudag. Þar fullyrti útvarpsstjóri: „Við yfirbjóðum ekkert í kaupum á bandarísku afþreyingarefni."

Það er einfaldlega ekki rétt. RÚV yfirbauð 365 í umræddan einkaréttarsamning við Disney-samsteypuna. 365 átti ekki möguleika í því tilfelli á að jafna verð eða magn efnis - og hefur ekki síðan samningurinn var gerður átt þess kost að kaupa efni frá Disney. Slíkur samningur kallast einkaréttarsamningur (output deal) og ekkert annað. Það var því einnig rangt þegar útvarpsstjóri sagði fullum fetum: „Við erum ekki með einkaréttarsamninga við Disney." Undirrituð hefur undir höndum staðfestingu þess efnis frá sölustjóra sjónvarpsefnis frá Disney fyrir Norðurlöndin. Útvarpsstjóri hefði átt að vita betur.

Höfundur er dagskrárstjóri Stöðvar 2.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×