Einar Hvalur Guðfinnsson 23. október 2006 07:00 Fyrir nokkrum árum var ég fenginn til skrifa um vísindaveiðar okkar á hvölum í bandaríska dagblaðið New York Newsday. Greinin hét „Whaling and Wailing" (Veiðar og væl) þegar hún kvaddi tölvu mína en birtist í blaðinu undir þeim frábæra titli „Let The Icelanders Be Free". Í stuttu máli sagði ég Bandaríkjamönnum að slappa af; hvalastofnarnir þyldu veiðarnar og við þyrftum að kíkja í hvalsmaga. Verið ekki svona viðkvæmir. Hvalir eru skepnur, ekki skurðgoð. Það var auðvitað eins og að tala við tré. Allar götur síðan hef ég verið aufúsugestur í sendiráðum okkar víða um heim og þegið skjall í eyra frá sjávarútvegsmönnum, jafnvel fyrrum ráðherrum. „Þessi grein var akkúrat það sem við þurftum á að halda í baráttunni." Ég er enn þeirrar skoðunar að hvalveiðar eigi rétt á sér á meðan ekki er um rányrkju að ræða. Hræsniskotið náttúrusnobb, hugsa ég þegar ég heyri fólk syrgja hvali með munninn fullan af kjúklingi. Gallinn er hins vegar bara sá að það borðar enginn hval lengur. Jafnvel orðið „hvalreki" hefur glatað merkingu sinni; nú þýðir það bara vond lykt og vesen. „Mínir menn" í ráðuneytinu og utanríkisþjónustunni reyna nú hvað þeir geta til að sannfæra landið og heiminn um réttmæti ákvörðunar sinnar. Og því meira sem maður heyrir, því meiri vonbrigði. Fyrir svo stóra ákvörðun þarf stærri ástæður en einn skitinn hvalbát úr slipp Þjóðminjasafnsins og löngun hans til að halda til veiða á ný. „Hvalveiðar í atvinnuskyni"? Hvaða atvinna? Stóriðja er atvinnuvegur en sjálfsagt þarf heila öld og hálft kjarnorkustríð áður en hvalveiðar verða alvöru atvinnuvegur. Enn hefur t.d. ekki tekist að benda á markaði fyrir afurðirnar. Það sem hefur komist næst því eru orð Kristjáns Loftssonar um að meint markaðsleysi sé bara kjaftæði. Sú saga heyrist að í opinberri heimsókn til Japans hafi fyrrverandi forsætisráðherra spurt Kozumi hvort hann vildi ekki kaupa hvalkjöt. Japanski forsætisráðherrann á að hafa svarað með því að ganga út að glugga og segja: „We have great problems with traffic in Tokyo." Hér er ekki verið að opna fyrir neinn alvöru atvinnuveg. Hér er ekkert þjóðþrifamál á ferð heldur aðeins gamaldags þjóðernisstolt: Síðasta herhvöt karlrembunnar. Að horfa á eftir hálfskökkum ryðkláfi skrölta út á Faxaflóa undir dynjandi lófataki var jafn absúrd og ef menn í víkingaklæðum hefðu komið saman á bakkanum framan við Fjörukrána til að kveðja víkingaskipið Íslending „sem heldur nú fullmannað austur um haf til að herja á land og annað". „Það er réttur okkar Íslendinga að leggjast í víking líkt og forfeður okkar gerðu!" Hvaða önnur atvinnugrein gæti hafið starfsemi á ný eftir sautján ára hlé og notað sömu gömlu verkfærin? Össur af stað á ný með sög og þjöl að vopni? KB banki tekur fram gömlu góðu vasatölvurnar? Kannski var hugmyndin bara sú að kalla þetta „frumbyggjaveiðar". Hvalur 9 komst enda vart út fyrir hafnargarð fyrsta daginn. Þá fór rafmagnið. Um kvöldið var bein útsending úr gömlu hvalstöðinni í Hvalfirði þar sem menn voru á fullu að gera klárt fyrir fyrsta hval. Daginn eftir kom í ljós að stöðina skorti leyfi til matvælaframleiðslu. Daginn þar á eftir viðurkenndi svo sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, að lagaumhverfi hvalveiða væri úrelt og „ekki hefði gefist tími til að koma því í lag áður en veiðarnar hófust". Samt hafði ráðherrann ekki nema sautján ár til að undirbúa ákvörðun sína! Ákvörðun sem er heldur engin smá ákvörðun. Ákvörðun sem vekur upp Íslandsandúð um allan heim. Og er hér komið að kjarna málsins: Jafnvel við sem vorum (áður en við horfðum upp á ruglið) hlynnt hvalveiðum hljótum að viðurkenna að óviturlegt sé að hefja þær nú. Við verðum að viðurkenna að almenningsálit heimsins er einfaldlega meiri tekjulind en níu óseljanleg stórhveli dregin á land. Og hver má svo veiða þessa níu hvali? Allir, segir ráðherrann. Yeah, right, segi ég. Af hverju var ekkert talað um leyfi? Af hverju var ákvörðunin ekki auglýst? Af hverju var Kristján Loftsson einn mættur á gikkinn þegar ráðherrann tilkynnti að nú mætti skjóta? Hér er farið með þjóðarhagsmuni af mikilli léttúð. Ráðherra gefur sér ekki tíma til að undirbúa sína stærstu ákvörðun. Vinnubrögð hans í málinu eru gamaldags amatörismi, hagsmunarekstur í stíl við Sjálfstæðisflokk síðustu aldar: „Bíddu bara, við reddum þessu." Og þegar mönnum verður hugsað til meintra milljarðaeigna Kristjáns Loftssonar vaknar enn og aftur krafan um að fjárreiður stjórnmálaflokkanna verði gerðar opinberar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hallgrímur Helgason Skoðanir Mest lesið Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun Öfundargenið Torfi H. Tulinius Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Halldór 30.11.2024 Halldór 7.500 íbúðir á Reykjavíkurflugvelli? Ásdís Kristjánsdóttir Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Í morgun vöknuðum við á merkilegum tíma Silja Rún Friðriksdóttir Skoðun Hálft líf heimilislausra kvenna Kristín I. Pálsdóttir,Halldóra R. Guðmundsdóttir Skoðun Veistu þitt skýjaspor? Hólmfríður Rut Einarsdóttir,Þóra Rut Jónsdóttir Skoðun
Fyrir nokkrum árum var ég fenginn til skrifa um vísindaveiðar okkar á hvölum í bandaríska dagblaðið New York Newsday. Greinin hét „Whaling and Wailing" (Veiðar og væl) þegar hún kvaddi tölvu mína en birtist í blaðinu undir þeim frábæra titli „Let The Icelanders Be Free". Í stuttu máli sagði ég Bandaríkjamönnum að slappa af; hvalastofnarnir þyldu veiðarnar og við þyrftum að kíkja í hvalsmaga. Verið ekki svona viðkvæmir. Hvalir eru skepnur, ekki skurðgoð. Það var auðvitað eins og að tala við tré. Allar götur síðan hef ég verið aufúsugestur í sendiráðum okkar víða um heim og þegið skjall í eyra frá sjávarútvegsmönnum, jafnvel fyrrum ráðherrum. „Þessi grein var akkúrat það sem við þurftum á að halda í baráttunni." Ég er enn þeirrar skoðunar að hvalveiðar eigi rétt á sér á meðan ekki er um rányrkju að ræða. Hræsniskotið náttúrusnobb, hugsa ég þegar ég heyri fólk syrgja hvali með munninn fullan af kjúklingi. Gallinn er hins vegar bara sá að það borðar enginn hval lengur. Jafnvel orðið „hvalreki" hefur glatað merkingu sinni; nú þýðir það bara vond lykt og vesen. „Mínir menn" í ráðuneytinu og utanríkisþjónustunni reyna nú hvað þeir geta til að sannfæra landið og heiminn um réttmæti ákvörðunar sinnar. Og því meira sem maður heyrir, því meiri vonbrigði. Fyrir svo stóra ákvörðun þarf stærri ástæður en einn skitinn hvalbát úr slipp Þjóðminjasafnsins og löngun hans til að halda til veiða á ný. „Hvalveiðar í atvinnuskyni"? Hvaða atvinna? Stóriðja er atvinnuvegur en sjálfsagt þarf heila öld og hálft kjarnorkustríð áður en hvalveiðar verða alvöru atvinnuvegur. Enn hefur t.d. ekki tekist að benda á markaði fyrir afurðirnar. Það sem hefur komist næst því eru orð Kristjáns Loftssonar um að meint markaðsleysi sé bara kjaftæði. Sú saga heyrist að í opinberri heimsókn til Japans hafi fyrrverandi forsætisráðherra spurt Kozumi hvort hann vildi ekki kaupa hvalkjöt. Japanski forsætisráðherrann á að hafa svarað með því að ganga út að glugga og segja: „We have great problems with traffic in Tokyo." Hér er ekki verið að opna fyrir neinn alvöru atvinnuveg. Hér er ekkert þjóðþrifamál á ferð heldur aðeins gamaldags þjóðernisstolt: Síðasta herhvöt karlrembunnar. Að horfa á eftir hálfskökkum ryðkláfi skrölta út á Faxaflóa undir dynjandi lófataki var jafn absúrd og ef menn í víkingaklæðum hefðu komið saman á bakkanum framan við Fjörukrána til að kveðja víkingaskipið Íslending „sem heldur nú fullmannað austur um haf til að herja á land og annað". „Það er réttur okkar Íslendinga að leggjast í víking líkt og forfeður okkar gerðu!" Hvaða önnur atvinnugrein gæti hafið starfsemi á ný eftir sautján ára hlé og notað sömu gömlu verkfærin? Össur af stað á ný með sög og þjöl að vopni? KB banki tekur fram gömlu góðu vasatölvurnar? Kannski var hugmyndin bara sú að kalla þetta „frumbyggjaveiðar". Hvalur 9 komst enda vart út fyrir hafnargarð fyrsta daginn. Þá fór rafmagnið. Um kvöldið var bein útsending úr gömlu hvalstöðinni í Hvalfirði þar sem menn voru á fullu að gera klárt fyrir fyrsta hval. Daginn eftir kom í ljós að stöðina skorti leyfi til matvælaframleiðslu. Daginn þar á eftir viðurkenndi svo sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, að lagaumhverfi hvalveiða væri úrelt og „ekki hefði gefist tími til að koma því í lag áður en veiðarnar hófust". Samt hafði ráðherrann ekki nema sautján ár til að undirbúa ákvörðun sína! Ákvörðun sem er heldur engin smá ákvörðun. Ákvörðun sem vekur upp Íslandsandúð um allan heim. Og er hér komið að kjarna málsins: Jafnvel við sem vorum (áður en við horfðum upp á ruglið) hlynnt hvalveiðum hljótum að viðurkenna að óviturlegt sé að hefja þær nú. Við verðum að viðurkenna að almenningsálit heimsins er einfaldlega meiri tekjulind en níu óseljanleg stórhveli dregin á land. Og hver má svo veiða þessa níu hvali? Allir, segir ráðherrann. Yeah, right, segi ég. Af hverju var ekkert talað um leyfi? Af hverju var ákvörðunin ekki auglýst? Af hverju var Kristján Loftsson einn mættur á gikkinn þegar ráðherrann tilkynnti að nú mætti skjóta? Hér er farið með þjóðarhagsmuni af mikilli léttúð. Ráðherra gefur sér ekki tíma til að undirbúa sína stærstu ákvörðun. Vinnubrögð hans í málinu eru gamaldags amatörismi, hagsmunarekstur í stíl við Sjálfstæðisflokk síðustu aldar: „Bíddu bara, við reddum þessu." Og þegar mönnum verður hugsað til meintra milljarðaeigna Kristjáns Loftssonar vaknar enn og aftur krafan um að fjárreiður stjórnmálaflokkanna verði gerðar opinberar.
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun